Stök frétt

Umhverfisstofnun og Ríkisútvarpið hafa gert með sér samstarfssamning um gerð sjónvarpsþáttaraðar sem miðar að því að fræða börn og ungmenni um umhverfismál. Þáttaröðin, sem RÚV framleiðir og sér um, verður sýnd í Stundinni okkar og mun birtast á Krakkarúv.is á sérhönnuðu vefsvæði. Þættirnir eru sex talsins og áætlaðir 5-10 mínútur að lengd hver.

Umhverfisstofnun styrkir gerð þáttanna og leggur til sérfræðiþekkingu. Umhverfisstofnun hefur þá rétt til að hafa þættina aðgengilega á vefsvæði sínu sem og að nýta þættina í markaðs- og fræðslustarfi. Sindri Bergmann Þórarinsson verkefnastjóri Krakkarúv og Guðfinnur Sigurvinsson upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar stýra verkefninu en þættirnir verða framleiddir næsta vetur og tilbúnir til sýningar í síðasta lagi næsta vor.

„Það er okkur mikið gleðiefni að fara í samstarf við Umhverfisstofnun. Það samræmist markmiðum okkar um að upplýsa, fræða og skemmta fullkomlega og saman getum við hjálpast að við að kenna börnum hvað þau geta sjálf gert til að hafa áhrif á umhverfið,“ segir Skarphéðinn Guðmundsson dagskrárstjóri Sjónvarpsins.

Kristín Linda Árnadóttir forstjóri Umhverfisstofnunar tekur í sama streng. „Mikilvægt er að ná til ungs fólks og vekja áhuga þess um umhverfismál. Með samstarfinu við Krakkarúv vonumst við til að ná til þessa aldurshóps með skemmtilegu og fræðandi efni um umhverfismál og notum tækifærið til að hlusta eftir þeirra sýn og lausnum til að gera umhverfi okkar enn betra.“