Stök frétt

Föstudaginn 15.apríl skilaði Umhverfisstofnun skýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi frá árinu 1990 til 2014 (National Inventory Report) til loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Í skýrslunni er að finna ítarlegar upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi, hvernig losunin hefur þróast frá árinu 1990 ásamt lýsingu á aðferðafræðinni sem er notuð við útreikningana.

Árið 2014 var losunin 4.597 kílótonn af CO2-ígildum sem er 26,5% aukning frá árinu 1990 en losunin hefur þó dregist saman um 10,7% frá árinu 2008. Þennan samdrátt í losun má einkum rekja til minni losunar frá stóriðju þar sem myndun PFC í álverum hefur minnkað vegna betri framleiðslustýringar, en einnig til minni losun frá fiskiskipum. Losun frá fiskiskipum hefur dregist saman um 33% frá árinu 1990. Losun á hvern íbúa á Íslandi árið 2014 var 13,97 tonn af CO2, en 14,2 tonn árið 1990.

45% af losun Íslands árið 2014 kom frá iðnaði og efnanotkun, 17% frá samgöngum og 16% frá landbúnaði. Nánari skiptingu á losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi má sjá á myndinni hér fyrir neðan.