Stök frétt

Varnarefni ná yfir fjölbreyttan hóp efnavara s.s. illgresiseyða, skordýraeyða og útrýmingarefni. Nýlega var gefin út reglugerð um meðferð varnarefna en meginmarkmið hennar er að vernda menn og umhverfi fyrir hugsanlegri hættu sem af þeim kann að stafa. Meðal helstu nýmæla í reglugerðinni má nefna að:

  • ráðherra skal útbúa aðgerðaáætlun til 15 ára um notkun plöntuverndarvara þar sem sett eru mælanleg markmið um aðgerðir til að draga markvisst úr notkun þeirra og stuðla að sjálfbærni á þessu sviði,
  • skylt er að skoða og prófa reglulega búnað sem notaður er til dreifingar á plöntuverndarvörum,
  • notkun varnarefna á friðlýstum svæðum er bönnuð nema í þeim tilgangi að hefta útbreiðslu ágengra tegunda eða bregðast við tjóni af völdum skaðvalda sem ógna lífríki á staðnum,
  • sett eru fyrirmæli um sértækar ráðstafanir til verndar vatnavistkerfisins,
  • dreifing varnarefna úr loftförum er bönnuð.

Reglugerðinni er ætlað að tryggja að þeir sem koma að markaðssetningu, meðferð og notkun varnarefna hafi aflað sér nægilegrar þekkingar á öruggri meðferð þeirra. Þá er eru felld inn í hana ákvæði úr reglugerð nr. 350/2014 um meðferð varnarefna og notendaleyfi og féll sú reglugerð úr gildi um leið og hin nýja tók gildi.

Með reglugerðinni er innleidd í íslenskan rétt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/128/EB frá 21. október 2009 um aðgerðaramma Bandalagsins til að ná fram sjálfbærri notkun varnarefna.

Umhverfisstofnun vinnur að því sem stendur að útbúa drög að aðgerðaáætlun um notkun varnarefna og verða þau auglýst í 6 vikur snemma á þessu ári til þess að gefa almenningi, hagsmunaaðilum og stjórnvöldum tækifæri að gera athugasemdir við aðgerðaáætlunina áður en hún verður gefin út.

Nánari upplýsingar