Stök frétt

Í sumar eru fyrirhugaðaðar framkvæmdir á vegum Umhverfisstofnunar á Gullfossi til að tryggja verndun friðlandsins. Stór hluti, líklega yfir 70%, þeirra sem sækja Ísland heima koma að Gullfossi. Svæðið er eitt af þeim sem stofnunin telur í hættu á að missa verndargildi sitt vegna álags ferðamanna, sé ekkert að gert, og hefur svæðið því verið eitt af forgangssvæðum undanfarin ár. Á undanförnum árum hefur verið farið í framkvæmdir til þess að umhverfi Gullfoss skaðist ekki, s.s. uppbyggingu göngustíga. Ljóst var þó að ráðast þyrfti í umbætur sem taka mið af heildarskipulagi svæðisins. Í því skyni efndi Umhverfisstofnun árið 2012 til hugmyndasamkeppni.Tillagan „Aldir renna“ bar sigur úr býtum og hefur deiliskipulag sem byggir á henni nú verið samþykkt. Ekki hefur áður verið unnið deiliskipulag fyrir friðlandið við Gullfoss.

Í framhaldinu hefur verið unnið að hönnun stíga, stiga milli efra og neðra svæðis og útsýnispöllum á efra svæðinu. Útsýnispallar og gönguleiðir um svæðið verða endurbættar og þeim fjölgað. Aðgengi verður betra fyrir alla hópa, svæðið mun bera aukinn fjölda og auka öryggi gesta.

 

Mynd tekin við núverandi stiga sem tengir efra og neðra útsýnissvæðið við Gullfoss þann 11. júní 2013 kl. 13.23.

Mynd tekin við núverandi stiga sem tengir efra og neðra útsýnissvæðið við Gullfoss þann 11. júní 2013 kl. 13.23. 

Ljósmynd: Guðmundur Valdimar Rafnsson 
 

Nýr stigi á milli efra og neðra svæðis er fyrsta framkvæmdin sem boðin verður út á grundvelli deiliskipulagsins. Nýi stiginn kemur til með að verða breiðari en sá gamli; rúmir þrír metrar á breidd, og mun hlykkjast niður hlíðina með fjölda hvíldarpalla með útsýni yfir Gullfoss. Vandað handrið verður beggja vegna stigans og stuðningsgrindur í honum miðjum. Stiginn mun liggja með landslaginu eins og kostur er og verður aðgengilegri en sá sem fyrir er. Ekki verður hjá því komist að nýr stigi mun hafa sjónræn áhrif, en leitast er við að takmarka þau með vali á legu og efni. Ráðgert er að fjarlægja núverandi stiga með öllu og því svæði leyft að jafna sig. Skoðað verður hvort fylla megi upp í sár eftir eldri stiga með efnistöku á því svæði sem áætlað er að leggja þann nýja.

Sýnir áætlaða leið legu nýs stiga frá neðra útsýnissvæðinu.

Sýnir áætlaða leið legu nýs stiga frá neðra útsýnissvæðinu. 

Ljósmynd: Margrét Pálsdóttir, nóvember 2012

Gert er ráð fyrir að umferð um neðra bílastæðið verði takmörkuð í framtíðinni og að breytt efra bílastæði muni taka við meginþunga vélknúinnar umferðar. Neðra svæðið verði fyrir ökutæki í forgangsakstri og þá sem eiga erfitt um gang.

Mynd sýnir aðstæður á neðra bílastæðinu innan marka friðlandsins við Gullfoss þann 11. júní 2013 kl. 13.24. Hér má telja samtals 18 rútur.

Mynd sýnir aðstæður á neðra bílastæðinu innan marka friðlandsins við Gullfoss þann 11. júní 2013 kl. 13.24. Hér má telja samtals 18 rútur.

Ljósmynd: Guðmundur Valdimar Rafnsson


Umhverfisstofnun hefur aukið heilsárs svæðalandvörslu á undanförnum árum. Í fyrra kom inn nýr starfsmaður fyrir Suðurland með aðsetur á Hellu sem sinnt hefur svæðinu í vetur. Þá hefur sumarlandvarsla aukist á svæðinu undanfarin ár og í sumar verða tveir landverðir til sumarloka og annar þeirra fram á haust.

Ítarefni um deiliskipulagið 

Helstu atriði sem valda sjónmengun eða hafa truflandi áhrif á upplifun gesta í og við Gullfoss eru af tvennum toga. Annars vegar fólksfjöldinn sem raðar sér niður á stíga og leiðir í og við helstu útsýnisstaði og skera sig úr ósnortinni náttúru með litrófi klæða sem það ber og hinsvegar ásýnd mannlausra mannvirkja. Hjá hvorugu verður komist að fullu, og við gerð skipulags er unnið að lausnum á mannvirkjagerð sem falli vel að ásýnd friðlandsins. Sýnt er fram á að breikkun stíga á álagssvæðum sem skapa svigrúm til þess að komast fram úr hópum eða að staldra við og njóta, geti stuðlað að dreifingu gesta um svæðið þegar mikinn fjölda ber að garði á sama tíma. Við fjölbreytileika í litrófi landslagsins eftir árstíðum fellur efnsival mannvirkja mismunandi inn í ásýnd umhverfisins hverju sinni, en skipulagið stuðlar að vistvænu efnisvali og afturkræfni þeirra framkvæmda sem útfærðar eru.

Í skipulaginu eru kynntar nýjar hugmyndir um að tengja helstu útsýnisstaði saman í hringflæði með tengingu stígakerfa útsýnissvæðanna í nálægð við fossinn og kostir og gallar slíkrar útfærslu settir fram. Þá er ráðgert að draga úr hefðbundinni umferð farartækja frá því sem nú er um neðra bílastæðið sem er innan friðlandsmarka. Þá verður aðgangur að bílastæðinu opinn og í forgangi gestum sem eiga t.a.m. erfitt um gang, ferðast í hjólastól, barnafólk með kerrur og vagna. Skipulag bílastæðis við söluskálann er unnið í samræmi við þær hugmyndir, en það kemur til með að anna þunganum af allri umferð stærri og minni farartækja er sækja friðlandið heim. Núverandi stigi er úr sér genginn og með nýju fyrirkomulagi þykir lega hans sem snýr að neðra bílastæðinu úrelt. Lega nýs stiga tekur mið af flæði gesta frá upphafi stígs austan við söluskálann sem og þeirri stefnu sem athygli sjónarsviðsins beinist að, þ.e. fossinum. Stiginn verður breikkaður frá því sem nú er og á honum er staðsettur stærri hvíldarpallur með útsýni í átt að Gullfossi.

Skipulagið tryggir aðgengi allra að helstu útsýnissvæðum upp að því marki sem kostur er og að við útfærslur mannvirkja sé farið að leiðbeiningum Mannvirkjastofnunar um algilda hönnun og Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sé þar hafður til hliðsjónar. Ekki eru áætlanir um að koma upp salernisaðstöðu í námunda við neðra útsýnissvæðið og bílastæði innan marka friðlandsins. Þess í stað er gestum beint á salernisaðstöðu í og við söluskálann og þeir gestir sem ekki geta nýtt sér stiga á milli útsýnissvæða, aki frjálst ferða sinna eftir Biskupstungnabraut og á Gullfossvegi á milli efra og neðra svæðis eftir þörfum.

Þá er í skipulaginu settar fram tillögur að staðsetningu skilta til upplýsinga og fræðslu almennt um svæðið.

Um Gullfoss 

Stórbrotið landslag og árstíðaskipt litróf umlykur fossinn og í góðu skyggni er mikilfenglegt útsýni upp til fjalla nær og fjær í allsráðandi nálægð við öfl náttúrunnar. Dramatískur hæðarmunur í línum landslagsins einkenna svæðið næst fossinum og þverhnípt fall er víða meðfram Hvítárgili. Klappir, klettar, urð, grjót, gras og mosi einkenna neðra útsýnissvæðið ásamt víðáttu hins efra. Töluvert er af berjalyngi og mosa á svæðum innan friðlandsins og lágvaxið kjarr. Gullfoss liggur í 191 m y.s. og þar er veðurfar eins og á heiðum uppi og er gróður því almennt viðkvæmur. Mikinn úða stafar af fossinum sem gerir aðkomu að kletti við fossinn hála. Þegar frystir er stígur um neðra útsýnissvæðið illur yfirferðar vegna klaka og snæhulu. Þessari leið hefur verið lokað með keðju þegar frystir og ferðamenn þar á eigin ábyrgð.

Í brúnum beggja þrepanna eru grágrýtislög, en undir þeim þykk setlög. Efra grágrýtislagið er um 10 m að þykkt í gljúfrinu neðan fossins en á brúninni er það aðeins 1-4 m að þykkt. Botnskriðið í Hvítá hefur þannig sorfið alldjúpa rás eða farveg í grágrýtið. Neðra grágrýtislagið er 12,5 m að þykkt. Milli grágrýtislaganna er nær 10 m þykkt setlag, sem gert er úr hnullungabergi, leirsteini og efst úr völubergi. Setlögin eru allvel samlímd nema völubergslagið. Undir neðra grágrýtislaginu er þykkt völubergslag og er sjáanleg þykkt þess í fossinum 8 m, en fremst í gljúfrinu er það 40 m þykkt. Í völubergslaginu eru víða losaralegar malarlinsur, sem vatnið þvær auðveldlega út úr berginu og eiga þær einkum sök á hröðum undangreftri í fossinum.

Í mestu flóðum sem mælst hafa hefur vatnsmagnið í fossinum orðið 2000 rúmmetrar á sekúndu. Á sumrin er rennsli um fossinn um 130 rúmmetrar á sekúndu.

Tengt efni