Stök frétt

Ný reglugerð nr. 300/2014 um þvotta- og hreinsiefni hefur tekið gildi. Sú breyting hefur átt sér stað frá fyrri reglugerð frá 2008 að nú er bannað að markaðssetja tauþvottaefni með fosfötum til heimilisnota. Samskonar breyting tekur gildi 1. janúar 2017 fyrir uppþvottavélaefni. 

Reglugerðin er annars til innleiðingar á reglugerð (EB) nr. 648/2004 og þar er m.a. kveðið á um að: 

  • aðeins megi markaðssetja þvotta- og hreinsiefni með yfirborðsvirkum efnum sem brotna greiðlega niður í umhverfinu, 
  • upplýsingar um efnainnihald komi fram á umbúðum eins og lýst er í VII. viðauka, 
  • upplýsingar um innihald ofnæmisvaldandi lyktarefna og rotvarnarefna komi fram á umbúðum eins og lýst er í VII. viðauka, 
  • skammtastærðir tauþvottaefna og uppþvottavélaefna komi fram á umbúðum eins og lýst er í VII. viðauka, 
  • á umbúðum komi fram vefslóð þar sem nálgast má upplýsingar um innihaldsefni, 
  • tiltækt sé sérstakt gagnablað hjá framleiðendum og innflytjendum fyrir heilbrigðisstarfsfólk. 

Miðað er við að innihald fosfata í tauþvottaefnum sé að hámarki 0,5 g af fosfór* (fosföt, fjölfosföt og fosfónöt) í ráðlögðum skammti sem ætlaður er til notkunar í hörðu vatni miðað við staðalþvott. Miðað við algengan skammt af þvottaefni eins og hér er lýst er (110 g) væri styrkur fosfórs í vöru að hámarki 0,44%. Þar sem á Íslandi er vatnið jafnan mjúkt (lágur styrkur kalsíumkarbónats) þá er ekki þörf fyrir eins stóra skammta og þar með minna af fosfór á hvern skammt. Sambærileg breyting fyrir uppþvottavélaefni til heimilisnota tekur gildi 1. janúar 2017 þar sem viðmiðið er 0,3 g af fosfór* í ráðlögðum skammti. 

Bannið kemur ekki í veg fyrir að fosfónöt megi nota í örlitlu magni svo að staðgengilsefni fosfatanna virki betur. Notkun fosfata verður leyfð áfram í uppþvottavélaefni og þvottaefni fyrir sérstök þvottahús eins og á vegum stofnana á meðan að ekki hafa komið fram hentug og hagkvæm staðgengilsefni eða aðferðir sem gefa jafn góða raun. Þegar og ef það gerist má reikna með að fosföt verði alfarið bönnuð í þvottaefnum. 

Fosföt eru notuð í þvottaefnum til að mýkja þvottavatnið með því að draga úr áhrifum salta sem auka hörku vatns. Þá bindast fosföt afar vel við óhreinindi og sjá til þess að þau blandist við þvottavatnið. Vegna mýktar íslenska vatnsins er ekki sama þörf fyrir fosföt í þvottaefnum fyrir íslenskan markað. Önnur efni hafa nú komið í staðinn sem gera sama gagn án þess að hafa sömu umhverfisáhrif. 

* 2% pentanatríum trípólýfosfat (STPP) er u.þ.b. 0,5% fosfór.