Stök frétt

Þann 14. maí næstkomandi mun umhverfisráðherra undirrita verndaráætlun Mývatns og Laxár í Mývatnsstofu.

Unnið hefur verið að verndaráætluninni um nokkurt skeið og fagnaðarefni að þeirri vinnu sé nú lokið. Áætlunin leggur traustan grunn að verndun og uppbyggingu á svæðinu og markar tímamót í verndun Mývatns og Laxár.

Við sama tækifæri verður opnuð ný fræðslusýning í gestastofunni með margvíslegum upplýsingum um verndarsvæðið. Lífríki Mývatns er einstætt og er nafn vatnsins dregið af þeim aragrúa mýs sem þar er. Talið að þar haldi sig fleiri andategundir en á nokkrum öðrum stað á jörðinni. Í Mývatnssveit er fjölbreytni í náttúrufari mikil og landslag sérstætt. Mývatn og Laxá eru á skrá um alþjóðlega mikilvæg votlendissvæði samkvæmt Ramsarsáttmálanum.

Undirritunin og opnunin fer fram í gestastofu Umhverfisstofnunar, Mývatnsstofu, að Hraunvegi 8 í Reykjahlíð næstkomandi laugardag kl. 14. Allir velkomnir.