Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Umhverfisstofnun bárust nýlega umsóknir frá íslenskum vísindamönnum vegna rannsóknaleyfa til neðansjávarrannsókna sem fyrirhugaðar voru vegna komu M/Y Octopus rannsóknarskips til landsins. Skipið er ríkulega búið rannsóknartækjum og eru tveir kafbátar um borð sem nýta átti til rannsókna á sjávarbotni við friðlandið í Surtsey og á þeim náttúrufyrirbærum er finnast við hverastrýturnar í Eyjafirði, sem eru friðlýst náttúruvætti. Gögnum um líffræði- og jarðfræðileg einkenni svæðanna mun verða safnað, tekin verða myndbönd, myndir, hita- og seltustig verður mælt en ásamt því átti að safna siglingafræðilegum upplýsingum.

Leiðangurinn er einstakt tækifæri fyrir íslenska vísindamenn og samkvæmt rannsóknaráætlun þá munu rannsóknirnar koma til með skila gögnum af allt að 130 metra dýpi í kringum Surtsey. Þess má geta að fyrir leiðangurinn þá voru aðeins til gögn um sjávarbotn Surtseyjarfriðlandsins niður á 30 metra dýpi. Einnig kom fram í rannsóknaráætlun að engin sýni yrðu tekin og að rannsóknirnar myndu á engan hátt verða skaðlegar hinu viðkvæma dýralífi og þeim búsvæðum sem finnast á svæðunum.

Eftir að hafa sent umsóknirnar til umsagna ráðgjafanefnda friðlandanna ásamt Surtseyjarfélagsins þá veitti Umhverfisstofnun leyfi til neðansjávarrannsóknanna með nokkrum skilyrðum. Á meðal skilyrðanna var t.d. að rannsóknarleyfin væru aðeins til neðansjávarrannsókna, að engum náttúruminjum yrði raskað og að öll gögn yrðu aðgengileg fyrir íslenska vísindamenn.