Stök frétt

Út er komin Skýrsla um skoðun á hita og loftræstikerfum. Skýrslan er afrakstur samstarfs Umhverfisstofnunar, heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna og Lagnafélags Íslands. Meðal þess sem kemur fram í skýrslunni er að upplýsingar vantaði frá hönnuðum um, hönnunarforsendur, kerfismyndir, kerfislýsingu, samvirkni tækja og tækjalista, rafstýriteikningar og stilliskýrslur frá iðnaðarmönnum.

Haustið 2006 hélt Lagnafélag Íslands námskeið um hita- og loftræstikerfi fyrir heilbrigðisfulltrúa að beiðni Umhverfisstofnunar. Góð aðsókn var að námskeiðinu. Í framhaldinu var efnt til samstarfsverkefnis Umhverfisstofnunar, heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga og Lagnafélags íslands. Var ákveðið að skoða hita- og loftræstikerfi í nokkrum húsum á landsvísu. Valin voru 3-4 hús í eigu hins opinbera á hverju heilbrigðiseftirlitssvæði. Aflað var upplýsinga um fyrirliggjandi gögn um kerfin hjá byggingarfulltrúum og húsvörðum. Að því loknu skoðuðu fulltrúi frá Lagnafélagi Íslands og heilbrigðisfulltrúi, á viðkomandi svæði, húsin saman.

Ráðstefna um skýrsluna verður haldin fimmtudaginn 8. apríl að Engjateigi 9 í Reykjavík. Lagnafélag Íslands heldur ráðstefnuna, í samvinnu við, Umhverfisstofnun, umhverfisráðuneytið, Brunamálastofnun, Verkfræðingafélag Íslands, Tæknifræðingafélag Íslands, Framkvæmdasýslu ríkisins, Fasteignir ríkissjóðs og Félag pípulagningameistara.