Stök frétt

Mynd: Linda Björk Hallgrímsdóttir
Þann 13. nóvember, í tilefni af degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember, verða ljóð afhjúpuð í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli og Vör Sjávarrannsóknarsetri við Breiðafjörð, í Ólafsvík. Verkefnið kallast „Ljóð í náttúru“ og er samstarfsverkefni Varar, Þjóðgarðsins og Skógræktar Ríkisins að Hreðavatni og er verkefnið styrkt af Menningarráði Vesturlands. Vör hefur valið ljóð til að skreyta sig með sem tengjast sjó og sjávarlífi og verða þau til sýnis í aðstöðu setursins á Norðurtanga. Í þjóðgarðinum verða sett upp skilti með ljóðum og í samvinnu við Siglingastofnun verða þrjú þau fyrstu sett á Öndverðarnesvita, Svörtuloftavita og Malarrifsvita en þeir eru allir innan þjóðgarðsins. Í sumar verða fleiri ljóðaskilti sett upp úti í náttúrunni.

Í tilefni af ljóðasýningunni efndi Vör til ljóðasamkeppni meðal nemenda í Grunnskóla Snæfellsbæjar. Þátttaka var mjög góð og bárust alls 37 ljóð, hvert öðru skemmtilegra. Leitað var álits þriggja einstaklinga utan héraðs við val á þeim ljóðum sem skara þóttu framúr. Dómnefnd valdi 8 úrvals ljóð og verða þau kynnt á ljóðavökunni.

Þann 13. nóvember klukkan tvö verður athöfn við Öndverðarnesvita þar sem ljóðaskiltið verður afhjúpað og ljóðin sem verða á vitunum þremur lesin upp. Þeir sem vilja geta farið með rútu frá Hellissandi. Eftir athöfnina verður haldið í Vör þar sem ljóðasýningin verður opnuð með upplestri grunnskólanemenda á eigin ljóðum. Í lokin verður boðið upp á heitt súkkulaði og pönnukökur.