Stök frétt

Góður árangur hefur náðst við eyðingu skógarkerfils í Krókhólmanum í Mývatni. Tekist hefur að eyða um 90% af skógarkerflinum síðastliðin tvö ár.

„Þetta er frábær árangur sem vekur hjá manni von að mögulegt sé að eyða þessari kræfu plöntu. Fullnaðarsigur er þó ekki í höfn og hefur skógarkerfillinn skotið sér niður á nokkrum stöðum á verndarsvæði Mývatns og Laxár. Stefnan er að eyða skógarkerflinum algjörlega af verndarsvæði Mývatns og Laxár“ sagði Bergþóra Kristjánsdóttir starfsmaður Umhverfisstofnunar við Mývatn og Laxá.

Sömuleiðis er hafið átak við að eyða lúpínu og halda í skefjum við Sandvatn en hún dreifir sér nú lítillega með vatninu. Áfram verður unnið að því að halda þessum ágengu plöntum í skefjum á verndarsvæði Mývatns og Laxár.

Myndin að neðan er úr Krókhólmanum hvar starfsmenn Umhverfisstofnunar eru að störfum. Eins og sjá má af myndinni. sem Bergþóra Kristjánsdóttir sendi er nánast ekkert eftir af skógarkerfli í hólmanum.