Stök frétt

Dyrhólaey, loftmynd

Opnað verður fyrir umferð almennings um Háey Dyrhólaeyjar á morgun þann 16. júní frá og með kl. 8:00 og fyrir Lágey þann 19. júní kl. 18:00.

Þann 6. maí sl. tók Umhverfisstofnun ákvörðun um að Dyrhólaey skyldi lokað fyrir almennri umferð frá 6. maí til og með 25. júní 2009. Umhverfisstofnun tók jafnframt þá ákvörðun að fylgst yrði með framgangi varps í eynni og tekin yrði ákvörðun í ljósi niðurstöðu þeirrar athugunar, í samráði við landeigendur og nytjarrétthafa, hvort að rétt yrði að opna Dyrhólaey fyrir umferð almennings fyrr og með hvaða hætti slíkt yrði gert.

Í byrjun júní fól Umhverfisstofnun Dr. Arnóri Þ. Sigfússyni fuglafræðingi hjá Verkís að meta ástand varps í eynni og hvort að rétt væri að opna umferð almennings að eynni eins og að framan greinir.

Þann 8. júní sl. fór Ólafur A. Jónsson deildarstjóri deildar náttúruverndar hjá Umhverfisstofnun í ferð með Dr. Arnóri Þ. Sigfússyni fuglafræðing í Dyrhólaey til að meta ástand varps í eynni. Með í för voru einnig:

  • Árni Snæbjörnsson fyrrverandi hlunnindaráðunautur hjá Bændasamtökum Íslands
  • Guðbjörg Helga Jóhannesdóttir atvinnu- og nýsköpunarráðgjafi frá Bændasamtökum Íslands
  • Þorsteinn Gunnarsson frá Vatnsskarðshólum sem nytjar æðavarpið
  • Guðbjörg Þórhildur Jónsdóttir oddviti Mýrdalshrepps  
  • Þráinn Sigurðsson sveitarstjórnarmaður í Mýrdalshreppi  

Var farið um eyna undir leiðsögn Þorsteins Gunnarssonar og þau svæði gengin sem helst er að vænta æðarvarps, kríuvarps og sílamáfsvarps samkvæmt korti Náttúrufræðistofnunar Íslands frá 1999, sem sýnir búsvæði nokkurra sjófugla í Dyrhólaey.

Að mati Dr. Arnórs Þ. Sigfússonar fuglafræðings hefur orðið mikil breyting á varpi æðarfugls, kríu og sílamáfs frá því sem var í athugun Náttúrufræðistofnunar Íslands frá 1999. Ljóst er að æðarvarp er nú mjög lítið ekki síst þegar miðað er við hvernig það var árið 1999. Það var mat fuglafræðingsins að ólíklegt væri að opnun Dyrhólaeyjar eftir 10. júní hefði í för með sér mikil áhrif á fuglalíf í eynni í ljósi þess hve varp er þar lítið í ár.

Umhverfisstofnun sendi framangreint mat Dr. Arnórs Þ. Sigfússonar til umsagnar landeigenda og nytjarrétthafa og óskaði eftir athugasemdum. Athugasemdir bárust frá sveitarstjóra Mýrdalshrepps og frá nytjarrétthöfum í Dyrhólaey.

Umhverfisstofnun hefur með hliðsjón af niðurstöðum Dr. Arnórs Þ. Sigfússonar fuglafræðings, og athugasemda sem bárust, tekið ákvörðun um að opna Háey Dyrhólaeyjar fyrir umferð almennings frá og með þriðjudeginum 16. júní kl. 08.00 en hafa Lágey Dyrhólaeyjar lokaða fram að föstudeginum 19. júní kl. 18.00.

Umhverfisstofnun ítrekar að hér er aðeins um að ræða ákvörðun sem gildir fyrir árið 2009. Umhverfisstofnun mun í samræmi við ákvæði 4. tl. auglýsingar um friðlýsingu Dyrhólaeyjar, nr. 101/1978, taka ákvörðun um takmörkun umferðar um Dyrhólaey fyrir 1. maí 2010.

Niðurstöður Dr. Arnórs Þ. Sigfússonar