Stök frétt

Í nokkrum Evrópulöndum hefur greinst örlítið magn af erfðabreyttu yrki af hrísgrjónum, kallað LL601, í matvörum sem innihalda hrísgrjón. Þessi tilteknu erfðabreyttu hrísgrjón, LL601, hafa ekki farið í gegnum leyfisveitingaferil Evrópusambandsins og ekki hefur verið veitt heimild til að markaðssetja þau í aðildarríkjum þess. Þau eru því ólögleg í Evrópusambandsríkjum og hafa verið innkölluð.

Á Íslandi hafa ekki verið settar reglur um markaðssetningu erfðabreyttra matvæla og því er ekki óheimilt að markaðssetja þessi hrísgrjón hér á landi. Ólíkt því sem er í aðildarríkjum Evrópusambandsins eru þau því ekki ólögleg á markaði hér.

Umhverfisstofnun getur samkvæmt lögum nr. 93/1995 um matvæli látið innkalla vörur af markaði hafi hún rökstuddan grun um að þær séu skaðlegar. Ekkert hefur komið fram um að þessi hrísgrjón séu skaðleg. Í fréttatilkynningu Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA) kemur fram að þótt stofnunin hafi ekki fullnægjandi gögn til að framkvæma fullt áhættumat meti hún það svo á grunni þeirra upplýsinga sem hún hafi m.a. um erfðabreytinguna að ekki sé líklegt að mönnum og dýrum stafi hætta af neyslu hrísgrjónanna.

Komi hins vegar fram vísbendingar eða grunur um að hrísgrjónin séu skaðleg mun Umhverfisstofnun bregðast við á grunni þeirra lagaheimilda sem stofnunin hefur.