Stök frétt

Ferðaklúbburinn 4x4 og Vélhjólaíþróttaklúbburinn hafa tekið höndum saman um átak gegn utanvegaakstri í samvinnu við Ferðafélag Íslands, Útivist, Landvernd, Umhverfisstofnun og Landgræðslu ríkisins og fleiri aðila. Átakið er kynnt undir vígorðunum “Áfram veginn – á réttum slóðum”. Um er að ræða vakningarherferð sem hefur það að markmiði að sporna gegn akstri utan vega með fræðslu og aðhaldi. Auk þess verður ökumönnum jeppa og torfærumótorhjóla veitt ráð um ábyrgan akstur í viðkvæmri náttúru Íslands.

Merki átaksins hefur verið hannað og gefin hafa verið út svokölluð “Umhverfisboðorð ökumanna”, sem kynnt verða félögum klúbbanna. Innan skamms hefjast svo birtingar á auglýsingum í fjölmiðlum. Límmiðum með merki átaksins verður dreift til félaganna og verður þeim ökumönnum sem temja sér ábyrgan akstur í náttúrunni gefinn kostur á að staðfesta það með því að skreyta ökutæki sín með merki og slagorði átaksins.

Jónína Bjartmars umhverfisráðherra ýtti átakinu úr vör með því að opna vefsíðuna www.arettumslodum.net. Á síðunni má m.a. finna „Umhverfisboðorð ökumanna“, ljósmyndir o.fl. Stefnt er að því að hlaða fræðslu og upplýsingum inn á síðuna eftir því sem þörf krefur.

Umræða um akstur utan vega hefur verið talsverð að undanförnu. Mikil aukning síðustu ára í innflutningi á jeppum og torfærumótorhjólum hefur kallað á vaxandi vandmál í náttúru landsins. Stóraukinn fjöldi fólks sækir í að upplifa víðernin og njóta óbyggðanna. Þessi þróun er fagnaðarefni og eykur skilning fólks á nauðsyn þess að vernda náttúruna, en um leið felur hún í sér vaxandi hættu á náttúruskemmdum af mannavöldum. Því er brýnt að ferðafólk umgangist náttúruna af virðingu og varfærni.

Aukning á akstri utan vega á jeppum og torfæruhjólum er alvarlegt vandamál og ef ekki tekst að sporna við henni strax mun það hafa í för með sér verulegan skaða á þeim náttúruverðmætum sem við eigum. Það vilja aðstandendur átaksins koma í veg fyrir með öllum tiltækum ráðum.