Stök frétt

Mynd: Luis Aguila á Unsplash

Umhverfisstofnun vill minna á að samkvæmt matvælalögunum nr. 93/1995 eru það framleiðendur og dreifingaraðilar sem bera ábyrgð á því að vörur þeirra sem ætlaðar eru mönnum til neyslu, þar með talið sælgæti, valdi ekki heilsutjóni og séu í samræmi við almenna hollustuhætti.

Á undanförnum árum hafa borist margar ábendingar frá foreldrum um börn sem hafa verið hætt komin þegar smáhlutir, matur eða sælgæti hefur staðið í hálsi þeirra.

Börn yngri en átta ára eru í meiri hættu á að standi í þeim en þau sem eldri eru. Ástæðan er að rými í munni þessara barna er tiltölulega lítið, tungan er stór og tekur stóran hluta af rými munnsins og þau hafa ekki fengið endanlega jaxla sem auðvelda þeim að tyggja fæðuna vel. Því stærra sem sælgætið er, þeim mun erfiðara er fyrir barnið að tyggja og þeim mun meiri hætta er á að staðið geti í því. Ekki má gleyma því að töluvert stór hluti barna á þessum aldri þjáist af kirtlastækkun sem einnig getur haft áhrif á rýmið í munninum.

Árið 2001 gáfu Hollustuvernd ríkisins (nú Umhverfisstofnun), Árvekni Lýðheilsustöð, Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur (nú Umhverfissvið Reykjavíkurborgar), Löggildingarstofa (nú Neytendastofa) og Rauði Kross Íslands út bækling með það markmið í huga að bregðast við ábendingum foreldra, vekja athygli á því að sælgæti og smáhlutir sem því fylgir, getur verið varasamt fyrir börn samhliða því að benda á rétt viðbrögð vegna aðskotahluta í hálsi. Í honum er að finna ábendingar og upplýsingar til foreldra og forráðamanna barna um hvað skal varast vegna sælgætis og smáhluta.

Þrátt fyrir ábyrgð framleiðenda og dreifingaraðila er mjög mikilvægt að foreldrar og forráðamenn barna séu vakandi fyrir þeim hættum sem geta fylgt sælgæti og smáhlutum og vandi valið þegar slíkt er keypt.

Sjá nánar: