Stök frétt

Glerungur á leirhlutum getur innihaldið blý og kadmíum og er eitt megin markmið reglugerðarinnar að kveða á um flæðimörk og leyfilegt hámarksmagn þessara þungmálma í vörunum. Í viðauka við reglugerðina er lýst aðferð til að mæla flæði blýs og kadmíum úr vörunni í matvæli.

Vísbendingar eru um að leirhlutir sem eru ríkulega litskreyttir geti gefið frá sér mikið magn af blýi, kadmíum og öðrum þungmálmum. Aldrei skal því nota leirvörur undir matvæli og drykki nema fullvíst sé að þeim sé ætlað að snerta matvæli. Sérstaklega skal varast að nota leirhluti undir súr matvæli og drykki s.s. ávaxtagrauta, ávaxtasafa og vín.

Merkingar á leirhlutum sem ætlað er að snerta matvæli

Efni og hlutir sem sérstaklega eru ætluð fyrir matvæli skulu vera auðkennd með einhverju af eftirfarandi:

  • Textanum “fyrir matvæli”;
  • Glas og gaffal merki;
  • Leiðbeiningum um rétta notkun;
  • Vöruheiti sem gefur til kynna notkunarsvið t.d. “kaffibolli” eða “matardiskur”.

Skrifleg yfirlýsing
Skriflega yfirlýsingin um leirhluti skal gerð af framleiðanda vörunnar eða seljanda á Evrópska efnahagssvæðinu.

Skrifleg yfirlýsing skal innihalda eftirfarandi:

  • Heiti eða fyrirtækjaheiti og heimilisfang framleiðanda fullunnins leirhlutar og innflytjanda með aðsetur á Evrópska efnahagssvæðinu,
  • Vöruheiti leirhlutarins,
  • Dagsetningu yfirlýsingarinnar,
  • Staðfestingu á að leirhluturinn sé í samræmi við þær kröfur sem settar eru fram í reglugerð nr. 439/2006 og reglugerð (EB) Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1935/2004 frá 27. október 2004 um efni og hluti sem ætlað er að snerta matvæli.

Skrifleg yfirlýsing skal vera þannig að auðvelt sé að tengja hana við þá leirhluti sem hún á við. Yfirlýsingin skal endurnýjuð ef breytingar eru gerðar á framleiðslu sem leiða til breytinga á flæði blýs og kadmíums.

Framleiðendur og/eða innflytjendur skulu geta framvísað til eftirlitsaðila viðeigandi gögnum sem sýna að flæði blýs og kadmíums sé innan þeirra marka sem sett eru fram í reglugerðinni. Í gögnunum skulu koma fram niðurstöður greininga, upplýsingar um hvernig greiningar voru framkvæmdar ásamt nafni og heimilisfangi rannsóknarstofunnar sem framkvæmdi þær.

Blý og kadmíum í leirhlutum
Flæði blýs og kadmíums skal ekki fara yfir neðangreind flæðimörk.

1. flokkur

Blý (Pb)

Kadmíum (Cd)

Ílát sem ekki er hægt að fylla og ílát
sem hægt er að fylla og sem eru allt
að 25 mm djúp

0,8 mg/dm2

0,07 mg/dm2

2. flokkur
Ílát, dýpri en 25 mm

4,0 mg/1

0,3 mg/1

3. flokkur
Eldunaráhöld, ílát til pökkunar eða
geymslu sem rúma meira en 3 lítra

1,5 mg/1

0,1 mg/1

 

Ábyrgð framleiðenda

Framleiðendur og dreifingaraðilar skulu tryggja að leirhlutir séu framleiddir samkvæmt viðurkenndum framleiðsluháttum þannig að við eðlilega eða fyrirsjáanlega notkun flæði ekki úr þeim efni í svo miklu mæli að heilsu manna kunni að stafa hætta af, eða það valdi óviðunandi breytingum á efnasamsetningu matvæla eða raski skynrænum eiginleikum þeirra.

Tímafrestur
Veittur er frestur til 20. maí 2007 til að uppfylla ákvæði um skriflega yfirlýsingu.

Nánari upplýsingar