Stök frétt

26. apríl 2006, á síðari degi opinberrar heimsóknar þeirra í Austur-Skaftafellssýslu, héldu forsetahjónin Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff í Suðursveit og Öræfi. Í för með þeim voru m.a. sýslumannshjónin, Albert Eymundsson bæjarstjóri á Höfn og bæjarstjórnarmenn.

Eftir viðkomu í Hrollaugsstaðaskóla og í Þórbergssetri fóru forsetahjónin í siglingu á Jökulsárlóni.

Næst var haldið að Kvískerjum, þar sem forsetahjónin skoðuðu söfn þeirra bræðra og síðan var skólinn að Hofgarði heimsóttur.

Næsti viðkomustaður var Skaftafellsþjóðgarður, þar sem Ragnar Frank Kristjánsson þjóðgarðsvörður og starfsfólk hans tóku á móti forsetanum við gamla Selbæinn. Ragnar Frank fræddi gestina um þjóðgarðinn og lagði áherslu á mikilvægi þess að náttúrufræðikennsla í skólum verði efld og að þjóðgarðurinn verði nýttur sem vettvangur fyrir útikennslu. Það skipti miklu máli að börn verði ekki einungis tölvulæs, heldur geti einnig “lesið í landið”. Forsetafrúin sýndi íslensku fjárhundum þjóðgarðsvarðarins og landnámshænsnum mikinn áhuga og kvaðst íhuga að hefja búskap á Bessastöðum, við dræmar undirtektir forsetans.

Hafdís S. Roysdóttir færði forsetanum tvær bækur að gjöf, “Náttúra norðursins” og ljósmyndabók um Skaftafell. Farið var inn í gamla Selbæinn, þar sem unnið er að viðgerð gömla húsanna og Ragnar Frank upplýsti gestina um sögu bæjarins og framkvæmdirnar sem standa þar yfir. Næst var haldið að gömlu hlöðunum, þar sem Hafdís S. Roysdóttir fræddi forsetann um gamlar byggingarhefðir í Austur-Skaftafellssýslu. Heimsókn forsetans lauk með kaffiveitingum í Hótel Skaftafelli, þar sem forsetinn kvaddi Austur-Skaftfellinga og þakkaði þeim fyrir ánægjulegar samverustundir.