Stök frétt

Mynd: whereslugo á Unsplash

Út er komin reglugerð um rokgjörn lífræn efnasambönd í málningu, lakki og efnum til lakkviðgerða ökutækja. Með reglugerðinni verður markaðssetning á málningu og lakki, sem innihalda lífræn leysiefni* og falla undir gildissvið reglugerðarinnar, takmörkuð verulega í tveimur áföngum. Þær vörur sem sjónum er beint að eru málning og lakk til almennrar notkunar og efni til lakkviðgerða ökutækja þ.m.t. efni til hreinsunar og formeðhöndlunar.

Með reglugerðinni verður óheimilt að markaðssetja málningu og lakk með leysiefnainnihaldi yfir þeim mörkum sem fram koma í viðauka reglugerðarinnar. Vörur sem falla undir gildissvið reglugerðarinnar skulu bera ákveðnar merkingar svo sýna megi fram á að þær uppfylli skilyrðin. Þetta mun eiga sér stað í tveimur skrefum, fyrst frá og með 1. janúar 2007 og síðan frá og með 1. janúar 2010. Vörur framleiddar fyrir þessar tvær dagsetningar mega þó vera á markaði í eitt ár lengur.

Leyfilegt leysiefnainnihald verður breytilegt eftir gerð vörunnar svo að þær tegundir málningar og lakks, sem enn eru ekki til eða reynast ekki eins vel og vatnsleysanleg efni, munu enn um sinn fá að innihalda leysiefni.

Tilgangurinn með þessu er að draga úr loftmengun af völdum uppgufunnar frá lífrænum efnasamböndum. Rokgjörn lífræn efnasambönd eiga þátt í myndun ósons við yfirborð jarðar. Óson getur hindrað eðlilegan vöxt plantna og getur í miklu magni verið hættulegt mönnum. Ósonmengun er vandamál víða í þéttbýli og nágrenni þess, sérstaklega á fjölmennum svæðum þar sem lítil hreyfing er á loftinu. Ósonmengun er ekki talin vera mikið vandamál hérlendis.

Reglugerðin er byggð á Evrópusambandstilskipun 2004/42/EB og munu sömu takmarkanir á leysiefnum í málningu og lakki gilda á öllu Evrópska efnahagssvæðinu.

*Með leysiefnum er átt við rokgjörn lífræn efnasambönd með suðumark að hámarki 250°C sem notuð eru í vörum til uppleysingar á hráefnum eða til þess að gefa vörunni tiltekna eiginleika.