Stök frétt

Umhverfisráðuneytið hefur gefið út auglýsingu nr. 799/2005 um takmörkun innflutnings á tilteknu fersku og frosnu grænmeti frá Taílandi. Um er að ræða nokkrar ferskar kryddjurtir, bananalauf, bambuslauf, rætur, og asparagus. Auglýsingin er gefin út í framhaldi af rannsóknum á umræddum vörum þar sem að undanförnu hefur verið staðfest tilvist örverumengunar, m.a. salmonella í þessum vörum.

Í auglýsingu ráðuneytisins eru taldir upp þeir tollflokkar sem um ræðir í þessu sambandi. Innflutningur á þessum vörum er þó heimill ef innflytjandi framvísar vottorði frá faggiltri rannsóknastofu til Umhverfisstofnunar um að varan innihaldi ekki Salmonella og að örveruástand hennar sé að öðru leyti ásættanlegt. Þau matvæli sem um ræðir og eru á markaði við gildistöku auglýsingarinnar skulu tekin af markaði geti innflytjandi ekki lagt fram rannsóknavottorð frá faggiltri rannsóknastofu um ásættanlegt örveruástand.

Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga hvert á sínum stað mun, undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar, hafa eftirlit með því að farið sé að ákvæðum þessarar auglýsingar.