Stök frétt

Umhverfisstofnun barst 18. febrúar sl. tilkynning í gegnum RASFF viðvörunarkerfi Evrópusambandsins og EFTA-ríkjanna fyrir matvæli og fóður um að greinst hefði ólöglegt rautt litarefni, Sudan-1, í Crosse & Blackwell Worcestershire sósu frá fyrirtækinu Premier Foods Ltd. í Bretlandi.

Það var breska matvælastofnunin sem tilkynnti um vöruna og samkvæmt frétt á vef stofnunarinnar mun umrædd sósa hafa verið notuð sem hráefni í ýmis matvæli á breskum neytendamarkaði.

Samkvæmt upplýsingum sem Umhverfisstofnun hefur aflað er umrædd Worcester sósa ekki á markaði hér á landi. Fylgst verður náið með þróun málsins.

Súdan litarefni eru talin vera krabbameinsvaldandi, en miðað við ætlaðan styrk þeirra í matvælum er hættan lítil. Engin bráð hætta er því á heilsutjóni við neyslu matvæla sem kunna að innihalda Súdan litarefni.