Stök frétt

Í dag, 16. febrúar, gengur í gildi Kýótó-bókunin við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.

Samkvæmt bókuninni skuldbinda ríki í viðauka I (þ.e. iðnríkin, þ.á m. Ísland) sig til þess að halda útstreymi sex gróðurhúsalofttegunda á árunum 2008-2012 innan útstreymisheimilda sem eru a.m.k. 5% lægri en útstreymi þeirra var á árinu 1990. Ætlast er til að aðildarþjóðir hafi náð merkjanlegum árangri við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda árið 2005.

Samningurinn var undirritaður fyrir Íslands hönd á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun í Ríó 1992, og bókunin var staðfest fyrir Íslands hönd 23. maí 2002.

Tímamótanna verður minnst víða um heiminn í dag. Í Reykjavík boðar umhverfisráðuneytið til opins fundar um loftslagsbreytingar og framkvæmd Kýótó-bókunarinnar á Grand Hótel Reykjavík kl. 12:00 - 13:45.