Stök frétt

Mynd: Kondor83 á Unsplash

Reglugerð EB gildir um efni og hluti svo sem umbúðir, eldhúsáhöld, ílát, borðbúnað og aðra hluti sem ætlað er að snerta matvæli. Í gerðinni eru að finna ákvæði um að efni og hlutir sem snerta matvæli skuli vera örugg og framleidd samkvæmt viðurkenndum framleiðsluháttum þannig að við eðlilega eða fyrirsjáanlega notkun flæði ekki úr þeim efni í svo miklum mæli að heilsu manna kunni að stafa hætta af, eða það valdi óviðunandi breytingum á efnasamsetningu matvæla eða raski skynrænum eiginleikum þeirra.

Efni og hlutir sem seldir eru fyrir matvæli sérstaklega skulu auðkenndir með áletruninni „fyrir matvæli“ eða með glas og gaffal merkinu. Sé varan augljóslega, eðli sínu samkvæmt ætluð fyrir matvæli, er ekki skylt að auðkenna hana á þennan hátt, t.d. hnífapör, kaffivél eða vínglös. Þá skulu notkunarleiðbeiningar fylgja þegar það er nauðsynlegt fyrir rétta meðhöndlun vörunnar.

Reglugerðin tilgreinir 17 tegundir efna og hluta sem ætlað er að snerta matvæli sem fjallað verður um í sérreglugerðum :

  • virkar og greindar umbúðir
  • lím
  • keramik
  • kork
  • gúmmí
  • gler
  • jónaskipt resín
  • málma og málmblöndur
  • pappír og pappaspjöld
  • plast
  • prenblek
  • sellulósa
  • sílikon
  • textílvörur
  • lakk og húðunarefni
  • vax
  • við

Nú þegar eru til sérreglur um sellulósa, keramik og plast.

Veigamesta breytingin með nýrri EB gerð er að hún gildir um virkar og sérhæfðar umbúðir. Virkar og sérhæfðar umbúðir eru tiltölulega nýjar tegundir umbúða sem hannaðar eru m.a. með það að markmiði að viðhalda og bæta skilyrði fyrir matvæli inn í umbúðum, einnig að stýra aðstæðum inní umbúðum sem geta haft áhrif á matvælin og þannig lengt geymsluþol. Í reglugerðinni er sérstök krafa sett um að umbúðirnar skuli ekki vera notaðar til þess að fela skemmd matvæli né til þess að villa um fyrir neytendum.

Í reglugerðinni eru tilgreindar verklagsreglur sem fylgja þarf við leyfisveitingu nýrra efna sem notuð eru í efni og hluti sem ætlað er að snerta matvæli, mat Evrópsku matvælaöryggisstofnunarinnar (European food safety authority) og álit fastanefndar ESB um fæðukeðjuna og dýraheilbrigði (Standing committee on the food chain and animal health).

Frá 26. október 2007 skulu efni og hlutir sem ætlað er að snerta matvæli vera rekjanleg eftir framleiðsluferlinum.