Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Umhverfisstofnun sendi Becromal erindi þann 25. mars síðastliðinn þess efnis að fyrirtækið hefði brotið gegn starfsleyfi, krafist var áætlunar um úrbætur og tilkynnt um að stofnunin áformaði að áminna Becromal.

  • Í fyrsta lagi brot á grein 2.8 um sýrustig í frárennsli.
  • Í öðru lagi brot á grein 3.1 um mælingar.
  • Í þriðja lagi brot á grein 4.5 um tilkynningar á frávikum og bilunum í mengunarvarnarbúnaði.

Becromal var veittur frestur til 4. apríl til þess að skila inn áætlun um úrbætur og tækifæri á að koma með athugasemdir. Becromal skilaði inn þeirri áætlun á tilsettum tíma. Umhverfisstofnun hefur nú farið yfir áætlun Becromal og komist að þeirri niðurstöðu að Becromal hafi í kjölfar aðgerða Umhverfisstofnunar bætt úr þeim annmörkum sem getið er um að ofan nema hvað varðar símælingar á fosfór.

Umhverfisstofnun veitir Becromal ehf. áminningu, sbr. 26. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, fyrir að samfelld vöktun með sjálfvirkum greiningarbúnaði á styrk fosfórs er ekki til staðar, sbr. grein 3.1 í starfsleyfi fyrirtækisins. Enn fremur gerir stofnunin kröfu um að úrbætur verði gerðar hvað varðar samfellda vöktun á styrk fosfór og að þeim verði lokið fyrir 1. júní 2011. Þangað til framangreindur búnaður kemst í gagnið skal handvirkum mælingum á styrk fosfórs haldið áfram. Loks gerir stofnunin ráð fyrir að fara í auka eftirlit eftir 1. júní 2011 til að ganga úr skugga um að úrbótum sé lokið.

Í kjölfar þessa máls telur Umhverfisstofnun nauðsynlegt að gerðar verði breytingar hvað varðar viðbrögð við því þegar fyrirtæki brjóta gegn ákvæðum starfsleyfa. Umhverfisstofnun telur að stofnunin þurfi heimildir til að beita stjórnsýsluviðurlögum, s.s. stjórnvaldssektum, þegar fyrirtæki hefur brotið gegn ákvæðum starfsleyfis en bætir síðar úr eða þegar ekki er unnt að bæta úr. Núverandi regluverk miðar að því að knýja fram úrbætur og virkar vel til þess en þar eru engin ákvæði um stjórnsýsluviðurlög eins og þekkjast í öðrum málaflokkum sem eru háðir opinberu eftirliti. Stofnunin telur mikilvægt að hafa úrræði til þess að beita slíkum viðurlögum í þeim tilvikum þar sem upp kemst um brot á starfsleyfi.

Eldri fréttir

Ítarlegri upplýsingar

Sýrustig í frárennsli

Staðfest er að pH-gildi hafi ítrekað verið fyrir utan mörk starfsleyfisins. Becromal hefur gert ákveðnar uppfærslur á kerfi og aðrar ráðstafanir til að bregðast við því, svo sem að panta viðbótar skömmtunardælur, leggja lagnir og setja upp festingar fyrir dælur. Þann 25. mars hafi fyrirtækið lokið við áður undirbúnar uppfærslur sem hafi skilað tilætluðum árangri. Í kjölfarið hefur fyrirtækið fylgst vel með kerfinu, fínstillt reglun og afköst skömmtunardæla til að tryggja að bestu stýringu á pH-gildum. Fyrirtækið ætlar að tryggja að sólarhringsmeðaltalsgildi pH fari ekki út fyrir sviðið 6,5-9,5. Jafnframt áformar fyrirtækið að ljúka við lagfæringu og fínstillingu kerfisins fyrir 1. júní 2011, bæta við söfnunartanki í rás þvottavatns til að dempa sveiflur á pH-gildum fyrir 1. maí 2011, að útfæra kerfið með þeim hætti að frárennsli komist ekki frá fyrirtækinu nema það sé með ph-gildi á sviðinu 6,5-9,5 fyrir 1. maí 2011 og láta sérfræðinga yfirfara og uppfæra kerfið þannig að það sé í samræmi við bestu fáanlegu tækni (BAT) fyrir 1. júní 2011. Umhverfisstofnun telur að í kjölfar eftirlits stofnunarinnar hafi fyrirtækið lokið við nauðsynlegar uppfærslur á kerfi sínu til að stjórna pH-gildum og því ekki tilefni til að knýja frekar á um úrbætur varðandi þetta skilyrði.

Mælingar

Umhverfisstofnun telur að gerðar hafi verið ráðstafanir til þess að tryggja að símælingar á leiðni séu til staðar framvegis og því ekki ástæður til þess að knýja á um frekari úrbætur hvað það varðar. Hins vegar sé úrbótum varðandi símælingu á fosfór ekki lokið en sá búnaður á að vera til staðar. Umhverfisstofnun telur því þörf á að áminna um þá skyldu og kveða á um að úrbætur séu gerðar fyrir 1. júní 2011.

Um tilkynningar á frávikum og bilunum í mengunarvarnarbúnaði

Becromal ber að tilkynna til Umhverfisstofnunar um öll tilvik þegar bilun verður í mengunarvarnarbúnaði. Framangreindar sveiflur á pH-gildi á tímabilinu 24. nóvember til 24. mars 2011 sýna fram á að mengunarvarnarbúnaður fyrirtækisins virkaði ekki sem skyldi. Umhverfisstofnun bárust ekki tilkynningar frá fyrirtækinu um bilun í mengunarvarnarbúnaði en samkvæmt framangreindu var fullt tilefni til slíkrar tilkynningar.

Í svari fyrirtækisins kemur fram að það hafi bætt og muni enn frekar bæta innra eftirlit til þess að tryggja skráningar og tilkynningar frávika til Umhverfisstofnunar. Fyrirtækið hefur þegar komið á ferli við tilkynningar til Umhverfisstofnunar. Umhverfisstofnun hafa borist tilkynningar um frávik eftir þann 24. mars 2011 þegar fyrirtækið vann að framangreindum úrbótum.

Umhverfisstofnun telur að í kjölfar bréfs stofnunarinnar hafi verið gerðar ráðstafanir sem eru til þess fallnar að tryggja að tilkynningar um bilanir berist framvegis. Þegar hafa borist tilkynningar sem gefa til kynna að tilkynningarkerfið virki. Umhverfisstofnun telur að miðað við þessar ráðstafanir sé ekki tilefni til að knýja frekar á um úrbætur varðandi þetta skilyrði en gert hefur verið í kjölfar bréfs stofnunarinnar.