Stök frétt

Hreindýralasagne er afar lystugur réttur. Þó svo að hráefnið sé villibráð með sínum vel þekktu sérkennum fá aðferðir ítalskrar matargerðarlystar að njóta sín. Útkoman ætti að kitla bragðlaukana í flestum þeim er kunna að meta góðan mat en kemur jafnframt skemmtilega á óvart.

Það tekur um fjórar klukkustundir að matreiða hreindýralasagne frá því að byrjað er á hreindýrakjötsósu Gunna. Það ber að sýna þolinmæði við gerð réttarins en útkoman verður líka eftir því.

Béchamel sósa:
Smjör
Hveiti
Mjólk
Kjúklingakjötkrafur
Sítrónupipar
Múskat
Paprikuduft
Tabasco sósa
Ostur
Parmesan ostur

Annað:
Hreindýrakjötsósa
Lasagne plötur
Ostur
Parmesan ostur


Béchamel sósa:
Í réttinn þarf u.þ.b. 1 l af béchamel sósu sé miðað við uppskriftina af hreindýrakjötsósu. Flestir sem fengist hafa við ítalska matargerðarlyst ættu að hafa þróað sitt eigið afbrigði af béchamel sósu. Þeir sem það hafa gert ættu að nota sína eigin útgáfu af sósunni.

Löguð er hefðbundin smjörbolla úr u.þ.b. 100 g af smjöri og þremur kúfuðum matskeiðum af hveiti. Bollan er bökuð upp með því að bæta út í mjólk í smá skömmtum, hræra vel og leyfa hitanum að ná suðumarki á milli þess sem mjólkinni er bætt við. Þegar sósan hefur fengið rétta áferð/þykkt er settur _ teningur af kjúklingakrafti út í og 1 tsk paprikuduft. Sósan er krydduð með sítrónupipar og múskati eftir smekk.

Best er að nota nýrifið múskat, þ.e. múskahnetan er sörguð niður beint í pottinn með rifjárni.

Sósuna verður að smakka til á þessu stigi. Ef það vantar salt er gott ráð að bæta við meira af kjúklingakjötkrafti. Eins og áður sagði fer magn sítrónupipars og múskats eftir smekk en höfundur uppskriftarinnar notar allt að hálfri múskathnetu. Ef ástæða þykir til að skerpa á sósunni virka 4 - 5 dropar af tabasco sósu einkar vel.

Þegar sósan er orðin góð á bragðið skal bæta út í hana u.þ.b. 150 g af rifnum osti. Blanda af ca. 100 g af brauðosti/gouda og 50 g af parmesan osti hefur ávallt reynst mjög vel.

Lasagne:
Lag af béchamel sósu er sett í botninn á hentugu eldföstu fati. Lagið er síðan þakið með lasagne-plötum og ofan á plöturnar er sett lag af hreindýrakjötsósu. Þetta er síðan endur tekið þar til a.m.k. þrjú lög af hverri gerð eru komin í fatið. Ofan á síðasta kjötsósulagið er sett lag af béchamel sósu.

Að lokum er rifnum osti (og parmesan osti) dreift jafnt yfir og fatinu lokað með álpappír (eða bara loki ef því er að skipta).

Fatið er sett í forhitaðan ofn og bakað í 40 mínútur við 175 °C. Þá er álpappírinn/lokið fjarlægður/fjarlægt og bakað í 20 mínútur til viðbótar eða þar til yfirborð réttarins hefur fengið á sig hið rétta lasagne yfirbragð.

Eftir að rétturinn hefur verið tekinn út úr ofninum skal láta hann standa í a.m.k. 20 mínútur áður en hann er borinn á borð. Sé það ekki gert lekur lasagne-ið út um allt og mun efiðara er að skera það.

Hreindýralasagne batnar við það að standa eins og oft er með lasagne rétti. Þá er það ekki síðra að gera kjötsósuna daginn áður en lasagne-ið er matreitt