Umhverfistofnun - Logo

Undirbúningur fyrir námskeið

Umsækjendur um bæði veiðikort og skotvopnaleyfi sækja námskeið hjá Umhverfisstofnun. Um er að ræða tvö námskeið. Annars vegar skotvopnanámskeið sem gefur réttindi til að sækja um skotvopnaleyfi hjá lögreglunni og hinsvegar veiðikortanámskeið sem gefur réttindi til þess að stunda skotveiðar.

Veiðikortanámskeið

Veiðikortanámskeiðið er að jafnaði eitt kvöld, 6 tímar að lengd, oftast frá kl 17.00-23.00.

Á veiðikortanámskeiðinu er fjallað um lög og reglugerðir um veiðar og náttúruvernd, umgengni á veiðislóð, náttúruvernd, dýravernd, fuglagreiningar, stofnvistfræði, veiðitímabil, veiðisiðfræði ofl. 

Kennt er eftir bókinni Veiðar á villtum fuglum og spendýrum. Æskilegt er að hafa lesið bókina fyrir námskeiðið og fæst hún í bókabúð. Að námskeiði loknu er tekið próf. Svara þarf minnst 75% réttu af prófinu.

Ef bókin Veiðar á villtum fuglum og spendýrum eða Skotvopnabókin fæst ekki í næstu bókabúð er hægt að panta þær á  www.eymundsson.is og þær eru sendar heim að dyrum án sendingarkostnaðar. 

Skotvopnanámskeið

Áður en námskeið hefst er ráðlegt að hafa lesið Skotvopnabókina sem fjallar um viðfangsefni skotvopnanámskeiðana. Bókin fæst í flestum bókabúðum. Ef bókin er ekki fáanleg í þinni bókabúð er það Forlagið ehf. sem sér um dreifingu um allt land. Nýjasta útgáfan af Skotvopnabókinni kom út 2010. Eldri útgáfur gagnast sem námsefni á námskeiðunum en nýja útgáfan er ítarlegri og betur framsett en þær eldri.

Áður en námskeið hefst er einnig ráðlagt fyrir þá sem aldrei hafa umgengist skotvelli eða skotvopn að leita til skotfélaga og fá kynningu eða leiðsögn. 
ATH. Mjög mismunandi er hvort þessi þjónusta er í boði hjá skotfélögum. Leitið því upplýsinga áður en haldið er á völlinn.

Bóklegi hluti námskeiðsins fer að jafnaði fram á tveimur kvöldum (2x4 tímar). Síðara kvöldið endar á skriflegu prófi. Svara þarf minnst 75% réttu á prófinu. Oftast er bóklegur hluti skotvopnanámskeiðsins haldin á fimmtudags og föstudagskvöldum (18.00-22.00) nema annað sé tekið fram.

Á skotvopnanámskeiðinu er fjallað um lög og reglugerðir sem varða skotvopn, landrétt og veiðirétt, vopn og skotfæri, meðferð skotvopna, öryggismál ofl.

Þriðja daginn sækja nemendur verklega þjálfun að loknum bóklega hlutanum á skotsvæði þar sem þeir fá undirstöðuþjálfun í meðferð skotvopna. 

Kennslugreinar á skotvopnanámskeiðinu

Bóklegur hluti

  1. Skotvopn og skotfæri
  2. Öryggi og meðhöndlun
  3. Vopnalöggjöfin
  4. Skotfimi og eiginleikar skotfæra
  5. Landréttur

Verklegur hluti

Kennsla í undirstöðuatriðum þess að meðhöndla skotvopn og notkun þeirra fer fram á viðurkenndu skotsvæði og skiptist niður í eftirfarandi:

  1. Umgengnisreglur um skotsvæði
  2. Örugg meðferð skotvopna á skotsvæði
  3. Leiðbeiningar við að skjóta 25 skotum með haglabyssu á leirdúfuvelli
  4. Leiðbeiningar við að skjóta a.m.k. 10 skotum af 22 LR kalibera riffli á riffilvelli
  5. Leiðbeiningar við að skjóta a.m.k. 5 skotum af riffli sem er stærra kaliber en 22 LR