Stök frétt

Fulltrúar frá Umhverfisstofnun flugu yfir strandstað og næsta umhverfi í dag ásamt fuglafræðingi frá Náttúrufræðistofnun Íslands og fulltrúa frá Olíudreifingu sem seig niður á skipið og kannaði hvort breyting hafi orðið á því frá því í gær.

Ástand skipsins er stöðugt og það hefur ekkert hreyfst frá því í gær. Við skoðun á aftari lest kom í ljós að aðgerð gærdagsins, þ.e. að setja einstreymisloka á öndunarrör, virðist hafa tekist þar sem nú er í lestinni um tveggja metra dýpt af vatni með allnokkurri olíu sem berst þangað úr botntönkunum. Með þessu vinnst tvennt. Annars vegar er minni olía í lekum botntönkum skipsins og hins vegar kemur aukin þyngd á skipið aftanvert svo það situr enn betur en fyrr.

Enn berst olíuslikja frá vélarrúmi skipsins og liggur upp að landi. Svartolían sem lak út í gær er hins vegar horfin. Sérstaklega var svipast um eftir ummerkjum eftir olíublauta fugla og 3 æðarfuglar sem sáust á skeri gætu hafa lent í olíu. Ekki hafa borist fregnir af öðrum olíublautum fuglum. Gengið verður um svæðið nú um kl. 15 á lágfjöru og svæðið skimað.

Stefnt er að því að hefjast handa við frekari aðgerðir í skipinu þegar á öðrum degi jóla en veðurspá er góð fyrir þann dag.