Friðlandið í Flatey

Samhliða undirbúningi að endurskoðun auglýsingar fyrir friðlandið í Flatey á Breiðafirði hafa fulltrúar Umhverfisstofnunar, Reykhólahrepps, Framfarafélags Flateyjar og ábúenda unnið að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir svæðið. Tillagan er hér með lögð fram til kynningar.

Austurhluti Flateyjar á Breiðafirði var friðlýstur árið 1975 vegna fuglaverndar. Náttúrfegurð eyjarinnar er mikil og fuglalíf óvenju fjölskrúðugt. Friðlandið nær yfir austurhluta eyjarinnar ásamt eyjum og hólmum sunnan við Flatey.

Í Flatey hefur um langt skeið verið náið samspil manns og náttúru þar sem nýting náttúruauðlinda hefur farið fram með sjálfbærni að leiðarljósi. Verndargildi svæðisins felst fyrst og fremst í að svæðið er búsvæði og varpsvæði mikilvægra fuglastofna á íslenskan og alþjóðlegan mælikvarða, þ.m.t. sjaldgæfra varpfugla á Íslandi og fugla sem eru á válista Alþjóða Náttúruverndarsamtakanna (IUCN).

Í friðlandinu er einstaklega fjölbreytt fuglalíf og þar er varpsvæði þórshana sem er sjaldgæfur fugl á landsvísu og er á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands sem tegund í hættu. Einnig verpa þar ábyrgðartegundir Íslendinga, s.s. kría og lundi. Þá er mikið æðarvarp innan marka friðlandsins. Á svæðinu eru miklar leirur með fjölbreyttu lífríki sem eru mikilvægar til fæðuöflunar fyrir margar tegundir fugla. Vísindalegt gildi svæðisins er mjög hátt og er fuglalíf vaktað og rannsakað þar reglulega.

Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir friðlandið í Flatey er ætlað að vera stefnumótandi skjal þar sem lögð er fram stefna um verndun svæðisins og hvernig skuli viðhalda verndargildi þess í sátt við ábúendur, heimamenn og aðra hagsmunaaðila. Markmiðið er einnig að stuðla að því að afnot gesta, ábúenda og ferðaþjónustuaðila af svæðinu séu með sjálfbærni að leiðarljósi. Í áætluninni er lögð fram stefna til næstu 10 ára, ásamt aðgerðaáætlun til 5 ára.

Nánari upplýsingar veitir Hildur Vésteinsdóttir, hildurv@ust.is eða í síma 591-2000.