Fulltrúar Umhverfisstofnunar og Mosfellsbæjar hafa undanfarið unnið að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir friðlandið við Varmárósa í landi Mosfellsbæjar. Tillaga að áætluninni hefur nú verið lögð fram til kynningar á heimasíðu Umhverfisstofnunar.
Frestur til að skila inn ábendingum og athugasemdum varðandi tillöguna er til og með 19. maí 2023.
Friðlandið við Varmárósa í Mosfellsbæ var friðlýst árið 1980. Friðlandið var síðast stækkað árið 2021 með auglýsingu nr. 380/2021. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda og viðhalda fitjasefi og búsvæði þess sem og náttúrulegu ástandi votlendis svæðisins ásamt sérstöku gróðurfari sem þar er og búsvæði fyrir fugla. Einnig er markmið með friðlýsingunni að tryggja rannsóknir og vöktun á lífríki svæðisins með áherslu á plöntuna fitjasef, búsvæði hennar og þær votlendisvistgerðir sem er að finna á svæðinu. Enn fremur að treysta útivistar-, rannsókna- og fræðslugildi svæðisins.
Meginmarkmið með gerð stjórnunar- og verndaráætlunar er að leggja fram stefnu um verndun friðlandsins og hvernig viðhalda skuli verndargildi svæðisins þannig að sem mest sátt ríki um. Í áætluninni er lögð fram stefnumótun ásamt aðgerðaáætlun til þriggja ára.
Áætlunin er sett fram í samræmi við 81. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.
Hægt er að kynna sér drög að áætluninni og aðgerðaáætlun sem henni fylgir hér fyrir neðan og skila inn ábendingum.
Hægt er að skila inn ábendingum og athugasemdum hér að neðan eða senda póst til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.
Nánari upplýsingar veita Guðbjörg Gunnarsdóttir, gudbjorg@umhverfisstofnun.is og René Biasone, rene.biasone@umhverfisstofnun.is eða í síma 591-2000.
Tengd skjöl:
Aðgerðaráætlun
Stjórnunar- og verndaráætlun, drög til kynningar á pdf formi