Guðlaugs- og Álfgeirstungur

Guðlaugstungur, ásamt Svörtutungum og Álfgeirstungum (Ásgeirstungur) voru friðlýstar sem friðland árið 2005. Friðlandið nær frá Hofsjökli niður að ármótum Blöndu og Haugakvíslar í suðausturhorni Blöndulóns. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda víðfemt og gróskumikið votlendi, sem jafnframt er eitt stærsta og fjölbreyttasta rústasvæði landsins. Yfir 23.000 pör heiðagæsa verpa á svæðinu og er það stærsta heiðagæsavarp í heiminum.

Svæðið hefur mjög hátt alþjóðlegt verndargildi og hefur verið Ramsarsvæði frá 2013 ásamt því að vera á skrá yfir alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði (International Bird Area).

Innan friðlandsins er öll umferð um varplönd heiðagæsar bönnuð frá 1. maí til 20. júní. Stærð friðlandsins er 398,2 ferkílómetrar.

Náttúrufar

Guðlaugstungur eru á norðanverðum Kili. Friðlandið liggur norðvestur af Hofsjökli og teygist til norðurs að bökkum Blöndulóns. Landslagið á svæðinu einkennist af miklum heiðalöndum, votlendi, rústum, mólendi og bersvæði sem ár og lækir skera sig í gegnum. Svæðið er hálent og liggur á milli 550-700 metra hæð yfir sjó. Í Guðlaugstungum finnast einar stærstu rústamýrar landsins og er í raun eitt af fáum svæðum þar sem slíkar minjar finnast. Rústirnar eru allt að tveggja metra háar bungur eða hæðir í freðmýralandslagi (sífrera) sem myndast við hækkun á yfirborði jarðvegs þegar jarðís myndast undir yfirborðinu í mýrarjarðveginum.

Í dag eru Guðlaugstungur stærsta heiðagæsavarp í heiminum. Litlar eða engar heimildir eru þó um varp heiðagæsa í Guðlaugstungum fyrr en á síðari hluta síðustu aldar. Árið 1970 fundust, sem dæmi, einungis um 100 heiðagæsapör, en á þeim tíma voru Þjórsárver stærsta heiðagæsavarp í heimi með áætluð um 12.000 pör. Vart varð við fjölgun heiðagæsa í Guðlaugstungum um og eftir 1980, en á sama tíma fækkaði þeim í Þjórsárverum. Um aldamótin var áætlað að um 13.600 pör væru á svæðinu og 2010 var stofninn metinn um 23.600 pör. Ísland er mikilvægasta varpsvæði heiðagæsarinnar og er varpstofninn í Guðlaugstungum áætlaður um fimmtungur af heimsstofni tegundarinnar.

Af öðrum fuglum á norðanverðum Kili eru heiðlóur, lóuþrælar, þúfutittlingar og snjóttitlingar algengastir.

Alþjóðlegt mikilvægi

Guðlaugstungur eru eitt af sex Ramsarsvæðum Íslands. Meginmarkmið Ramsarsamkomulagsins frá 1971 er að vernda votlendi, með sérstaka áherslu á mikilvæg svæði fyrir fugla. Í dag eru 90 þjóðir sem hafa skuldbundið sig að Ramsar samningnum og eru um 2300 Ramsarsvæði í heiminum (skrifað 2020).  Árið 2010 var áætlað að um 23.600 pör af heiðagæsum, sem gera um fjórðung af íslenska stofninum. Jafnframt er það langstærsta varp heiðagæsa í heiminum öllum, sem færir Guðlaugstungur á skrá yfir alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði (Important Bird and Biodiversity Area).