Svæði í hættu

Friðlýst svæði á Íslandi eru í júlí 2013 113 talsins, en umfang þeirra, eðli og ástand er eins misjafnt og svæðin eru mörg. Svæði kunna að hafa verið friðlýst vegna náttúrufars, landslags, jarðminja, útivistar eða sambland framangreindra þátta. Margir þættir geta haft neikvæð áhrif á verndargildi friðlýstra svæða. Þó má segja að áhrif mannlegra umsvifa séu hvað mest en friðlýst svæði eru oft vinsælir áfangastaðir ferðamanna. Samkvæmt heimildum Ferðamálastofu komu árið 1953 um 6000 erlendir gestir til landsins. Árið 1983 voru þeir tæplega 78.000 og 2003 komu um 320.000, eða álíka margir og íbúar á landinu. Í fyrra komu svo um 807.000 manns til Íslands. Talið er að fjöldi ferðamanna fari yfir milljón á árinu 2014 eða 2015.

Í skýrslu umhverfisráðuneytisins „Velferð til framtíðar" kom fram að bregðast þurfi við niðurstöðum rannsókna á þolmörkum ferðamannastaða með aðgerðum til að sporna við skemmdum vegna álags. Einnig er lagt til að leggja og merkja göngustíga á ákveðnum friðlýstum svæðum með það að markmiði að bæta aðgengi almennings að náttúru landsins og búa svæðin jafnframt undir aukið álag af vaxandi ferðamannastraumi. Samhliða tvöföldun á fjölda erlendra ferðamanna síðastliðinn áratug auk fjölgunar innlendra ferðamanna þarf að stuðla að umbótum á friðlýstum svæðum, auka landvörslu og efla fræðslu.

Umhverfisstofnun tók saman í fyrsta sinn lista árið 2010 yfir þau svæði sem að veita þarf sérstaka athygli og að hlúa sérstaklega að. Rauði listinn hefur síðan verið gefinn út á tveggja ára fresti.

Aðferðarfræðin sem notuð er við að byggja listann upp er svokölluð SVÓT aðferðarfræði þar sem greindir eru styrkleikar, veikleikar, ógnir og tækifæri viðkomandi svæðis. Með styrkleika er átt við verndargildi/ verndarandlag viðkomandi svæðis, með veikleika er átt við hvaða þættir eða svæði innan svæðisins er mest hætta á að verndargildi skerðist, með ógnum er átt við þær ógnir sem steðja að viðkomandi svæði og að síðustu er tækifærin eða hvernig bregðast megi við viðkomandi ógnum. Svæðin flokkast á rauðan lista annars vegar en þar eru þau svæði sem Umhverfisstofnun telur að séu undir miklu álagi sem bregðast þurfi við strax og á appelsínugulan lista hins vegar sem eru þau svæði sem stofnunin telur að séu undir töluverðu álagi sem einnig þurfi að fylgjast vel með og bregðast við á ýmsan hátt.

 

Svæðin eru eftirfarandi í stafrófsröð:

 

Rauði listinn

Appelsínuguli listinn