Varmárósar Mosfellsbæ

Umhverfisstofnun, ásamt sveitarfélaginu Mosfellsbæ, kynnir hér með áform um endurskoðun á friðlýsingu Varmárósa í samræmi við 49. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013. Um er að ræða breytingu á mörkum friðlandsins ásamt endurskoðun friðlýsingarskilmála.

Varmárósar voru fyrst friðlýstir árið 1980 en friðlýsingin var endurskoðuð árið 2012. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda og viðhalda fitjasefi (Juncus gerardii) og búsvæði þess. Einnig er markmið friðlýsingarinnar að vernda náttúrulegt ástand votlendis og séstakan gróður sem á svæðinu er að finna. Þau áform sem nú eru kynnt snúa að því að svæðið verði stækkað og friðlýsingarskilmálar endurskoðaðir. Tillögu að stækkun friðlandsins má sjá hér:

 

Svæðið sem áformað er að friðlýsa er mikilvægt fyrir vernd fitjasefs og búsvæðis þess. Verndargildi svæðisin felst einnig í að fitjarnar eru sérstæðar að gróðurfari og mikilvægt vistkerfi fyrir fugla. Fitjarnar eru forgangsvistgerð. Svæðið er einnig hluti af mikilvægu bú- og fæðusvæði fyrir fugla sem er skilgreint sem alþjóðlega mikilvægt fyrir margæs og sendling. Með stækkun svæðisins er stuðlað að verndun líffræðilegrar fjölbreytni þar sem svæðið hefur bæði hátt verndargildi vegna fágætra tegunda og vistgerða sem þar er að finna og einnig sem hluti af stærra vistkerfi til verndar  fjölskrúðugu lífríki á sjó, fjöru og landi. 

Áform um endurskoðun friðlýsingarinnar eru kynnt í samræmi við 2. mgr. 38. gr. náttúruverndarlaga en gert er ráð fyrir að svæði sem ekki er á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár skuli kynnt sérstaklega. Í kjölfar kynningartímans munu fulltrúar Umhverfisstofnunar, Mosfellsbæjar og umhverfis- og auðlindaráðuneytis vinna drög að endurskoðuðum friðlýsingarskilmálum og leggja fyrir þá sem hagsmuna eiga að gæta. Fyrirhuguð endurskoðuð friðlýsing mun að lokum verða auglýst opinberlega í þrjá mánuði og öllum gefinn kostur á að gera athugasemdir við framlagða tillögu.

Friðlýsingin miðar að því að varðveita einkenni og sérstöðu svæðisins. Í auglýsingum um friðlýsingar er heimilt að kveða nánar á um takmarkanir sem leiða af friðlýsingunni. Þá er jafnframt heimilt að kveða á um að afla skuli leyfis Umhverfisstofnunar til athafna og framkvæmda sem áhrif geta haft á verndargildi viðkomandi svæðis.

Frestur til að skila athugasemdum við áformin er til og með 18. ágúst 2020. Athugasemdum má skila á eyðublaði hér fyrir neðan, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða senda með pósti til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.

Frekari upplýsingar veita Hildur Vésteinsdóttir (hildurv@ust.is), Hildur Hafbergsdóttir (hildurhafberg@ust.is) með tölvupósti eða í síma 591-2000.

Tengd skjöl

Upplýsingar

Skrár