Umhverfistofnun - Logo

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull, stækkun

Samstarfshópur, skipaður fulltrúum Umhverfisstofnunar, Snæfellsbæjar og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, hefur unnið að endurskoðun reglugerðar nr. 568/2001 um þjóðgarðinn Snæfellsjökul og að stækkun þjóðgarðsins.  Tillaga samstarfshópsins að stækkun þjóðgarðsins og nýrri reglugerð var lögð fram til kynningar þann 21. október 2020.

Tillagan gerir ráð fyrir að mörkum þjóðgarðsins verði breytt í samræmi við stækkun hans. Breytingin á reglugerðinni tekur mið af þessu og gerir einnig m.a. ráð fyrir ítarlegri markmiðsákvæðum og lýsingu á svæðinu, gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir þjóðgarðinn auk þess sem ýmis ákvæði eru færð til og útfærð nánar, þ.m.t. ákvæði um umgengni, umferð og dvöl á svæðinu, landnotkun og mannvirkjagerð, starfsemi í þjóðgarðinum og viðurlög við brotum.

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull er staðsettur á utanverðu Snæfellsnesi á Vesturlandi. Hann var stofnaður 28. júní árið 2001 í þeim tilgangi að vernda bæði sérstæða náttúru svæðisins og merkilegar sögulegar minjar. Markmið þeirrar tillögu sem nú er lögð fram er að vernda til framtíðar stórt og lítt snortið svæði sem hefur að geyma sérstætt landslag, lífríki og jarðminjar, þannig að náttúra svæðisins fái að þróast eftir eigin lögmálum svo sem kostur er. Friðlýsingin miðar jafnframt að því að vernda heildstæð náttúruleg tegunda- og vistkerfi, gróðurfar, jarðmyndanir, landslag og menningarminjar sem einkenna svæðið. Þá miðar friðlýsingin að því að tryggja almenningi aðgang að svæðinu til útivistar og til þess að kynnast náttúru og sögu svæðisins. Með friðlýsingunni er einnig stuðlað að því að sjálfbærni sé höfð að leiðarljósi í nýtingu, stjórnun, framtíðarskipulagningu og rekstri innan þjóðgarðsins.

Frestur til að skila athugasemdum við tillöguna var til og með 21. janúar 2021, í samræmi við málsmeðferð 2. mgr. 39. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Úrvinnsla athugasemda stendur nú yfir og í kjölfarið mun Umhverfisstofnun vísa málinu til ráðherra með tillögum að friðlýsingarskilmálum og gera grein fyrir því hvort náðst hafi samkomulag um friðlýsinguna við hlutaðeigandi aðila.

Frekari upplýsingar veita Eva B. Sólan Hannesdóttir  (evasolan@ust.is) og Jón Björnsson (jonb@ust.is) með tölvupósti eða í síma 591-2000.

Tengd skjöl: