Tillaga að friðlýsingu vatnasviðs Skaftár í verndarflokki rammaáætlunar – frestur til athugasemda
Umhverfisstofnun hefur nú lagt fram til kynningar tillögu að friðlýsingu vatnasviðs Skaftár: Búlandsvirkjun R3140A á grundvelli flokkunar svæðisins í verndarflokk verndar- og orkunýtingaráætlunar, sbr. ályktun Alþingis nr. 24/152, frá 15. júní 2022.
Lögð er fram tillaga að auglýsingu um friðlýsingu svæðisins og kort þar sem mörk svæðisins er dregin upp.
Tillagan byggir á 53. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013.
Forsendur afmörkunar
Faghópur 1 í 3. áfanga rammaáætlunar skilgreindi áhrifasvæði virkjunar svo: „Svæði sem til greina koma vegna vatnsaflsvirkjana voru afmörkuð þannig að miðað var við vatnasvið ofan fyrirhugaðra stíflumannvirkja en þar fyrir neðan var aðeins tekinn meginfarvegurinn og næsta nágrenni hans (100-500 m út frá miðlínu eftir aðstæðum) ...“ Verndarsvæði vegna Búlandsvirkjunar R3140A er afmarkað með þeim hætti að neðan fyrirhuguð stíflumannvirki er tekinn meginfarvegurinn og nágrenni hans eða 500m út frá miðlínu.
Frestur til að skila athugasemdum
Frestur til að skila athugasemdum er til og með 2. febrúar 2023. Að kynningartíma loknum tekur Umhverfisstofnun saman umsögn um framkomnar athugasemdir við tillöguna og vísar tillögu að friðlýsingarskilmálum til ráðherra. Athugasemdum má skila á forminu hér að neðan, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða senda með pósti til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.
Frekari upplýsingar veita Ingibjörg Marta Bjarnadóttir ingibjorgb@umhverfisstofnun.is og Davíð Örvar Hansson david.hansson@umhverfisstofnun.is.