Náttúruverndaráætlanir

Um náttúruverndaráætlanir

Umhverfisráðherra skal eigi sjaldnar en á fimm ára fresti láta vinna náttúruverndaráætlun fyrir landið allt og leggja fyrir Alþingi.

Umhverfisstofnun skal í samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands, náttúrustofur og hlutaðeigandi náttúruverndarnefndir sjá um undirbúning og öflun gagna vegna áætlunarinnar. Í náttúruverndaráætlun skulu vera sem gleggstar upplýsingar um náttúruminjar, þ.e. náttúruverndarsvæði og lífverur, búsvæði þeirra, vistgerðir og vistkerfi, sem ástæða þykir til að friðlýsa. Skal í áætluninni lýst sérkennum minjanna og þýðingu þeirra í náttúru landsins. Áætlunin skal m.a. taka til helstu tegunda vistgerða og vistkerfa hér á landi, svo og jarðmyndana.

Við gerð hennar skal m.a. taka tillit til:

 • menningarlegrar og sögulegrar arfleifðar 
 • nauðsynjar á endurheimt vistgerða 
 • nýtingar mannsins á náttúrunni 
 • ósnortinna víðerna.

Þá skal m.a. miðað við að þau svæði sem áætlunin tekur til:

hýsi sjaldgæfar tegundir eða tegundir í útrýmingarhættu,séu óvenjutegundarík eða viðkvæm fyrir röskun,séu nauðsynleg til viðhalds sterkra stofna mikilvægra tegunda, hafi verulegt vísinda-, félags-, efnahags- eða menningarlegt gildi, séu mikilvæg fyrir viðhald náttúrulegra þróunarferla, hafi alþjóðlegt náttúruverndargildi, séu einkennandi fyrir náttúrufar viðkomandi landshluta.

 

Náttúruverndaráætlun 2004-2008

Alþingi ályktar, með vísan til 65. gr. náttúruverndarlaga, nr. 44/1999, að á næstu fimm árum skuli unnið að friðlýsingu fjórtán svæða á landinu til að stuðla að traustari vernd íslenskrar náttúru og framkvæmd alþjóðlegra samninga um náttúruvernd hér á landi. Jafnframt verði á tímabilinu unnið áfram að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs.

Náttúruverndaráætlunin taki til eftirfarandi svæða:

I. Fuglasvæði.

Búsvæði fugla á eftirtöldum svæðum:

 1. Álftanes – Akrar – Löngufjörur
 2. Álftanes – Skerjafjörður
 3. Austara-Eylendið
 4. Guðlaugstungur – Ásgeirstungur (Álfgeirstungur)
 5. Látrabjarg – Rauðasandur
 6. Vestmannaeyjar
 7. Öxarfjörður

II. Stækkun þjóðgarða.

 • Þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum verði stækkaður um allt að 78 km² þannig að hann myndi samfellda heild um gljúfrin. Stækkunin nái einkum til lands austan við núverandi þjóðgarðsmörk þannig að Meiðavallaskógur, nærliggjandi svæði við norðvesturmörk hans og landræma sunnan núverandi marka verði innan þjóðgarðs. 
 • Þjóðgarðurinn í Skaftafelli verði stækkaður um nálægt 730 km² svo að hann nái yfir allan Skeiðarársand til sjávar. 

III. Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs.

 • Unnið verði áfram að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og verndarsvæða sem munu tengjast honum á grundvelli ályktunar Alþingis frá 10. mars 1999 svo og ákvörðunar ríkisstjórnarinnar frá 26. september 2000.

IV. Plöntusvæði, gróðurfar og jarðfræði.

Sjaldgæfar plöntutegundir, gróðurfar og jarðfræðiminjar á eftirtöldum svæðum:

 • Sjaldgæfar plöntutegundir
  • Látraströnd – Náttfaravíkur, 
  • Njarðvík – Loðmundarfjörður. 
 • Sérstætt gróðurfar
  • Vatnshornsskógur í Skorradal. 
 • Jarðfræðiminjar
  • Geysir í Haukadal
  • Reykjanes – Eldvörp – Hafnaberg.

 

Náttúruverndaráætlun 2009-2013

Alþingi ályktar, með vísan til 65. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999, að á næstu fimm árum skuli unnið að friðlýsingu 13 svæða til þess að stuðla að traustri verndun íslenskrar náttúru og framkvæmd alþjóðlegra samninga um náttúruvernd hér á landi. Tilgangurinn er að koma upp neti verndarsvæða til þess að tryggja verndun landslags, náttúru og líffræðilegrar fjölbreytni, þess sem sérstætt er í náttúru landsins, fágætt eða í hættu og að friða náttúruleg landsvæði til náttúruverndar, vísindarannsókna, vöktunar og útivistar.

Eftirtalin svæði og tegundir lífvera verði á náttúruverndaráætlun 2009–2013:

I. Plöntusvæði.

 • Snæfjallaströnd – Kaldalón. 
 • Eyjólfsstaðaskógur. 
 • Egilsstaðaskógur og Egilsstaðaklettar. 
 • Gerpissvæðið. 
 • Steinadalur í Suðursveit (verður hluti af Vatnajökulsþjóðgarði). 

II. Dýrasvæði.

 • Undirhlíðar í Nesjum. 
 • Tjarnir á Innri-Hálsum í Berufirði. 

III. Vistgerðir á hálendinu.

Tvær vistgerðir á hálendinu verði friðaðar, rústamýravist og breiskjuhraunavist. Vernd þeirra verði m.a. tryggð með því að friðlýsa eftirtalin svæði:

 • Orravatnsrústir, 
 • stærra friðland í Þjórsárverum, 
 • svæði í Skaftártungum og á Síðuafrétti (sem verða hluti af Vatnajökulsþjóðgarði).

IV. Jarðfræðisvæði.

 • Langisjór og nágrenni (verður hluti af Vatnajökulsþjóðgarði). 

V. Tegundir plantna og dýra:

Friðlýstar verði:

 • 24 tegundir háplantna,
 • 45 tegundir mosa, 
 • 90 tegundir fléttna, 
 • þrjár tegundir hryggleysingja verði friðlýstar: tröllasmiður, tjarnarklukka og brekkubobbi. 

Svæði sem eru á fyrstu náttúruverndaráætlun og unnið verður með áfram:

Áfram verði unnið að friðlýsingu svæða sem eru á fyrri náttúruverndaráætlun og ekki hefur verið hrundið í framkvæmd enn. Staða friðlýsingarferlis þessara svæða er mjög misjöfn, en reynt verður að friðlýsa sem flest á tímabilinu. 

Hér má nálgast ítarlegri upplýsingar í skjölum Alþingis um náttúruverndaráætlunina.