Umhverfistofnun - Logo

Gerpissvæði

Umhverfisstofnun, í samstarfi við sveitarfélagið Fjarðabyggð og landeigendur, vinnur að undirbúningi friðlýsingar jarða á Gerpissvæði, milli Norðfjarðar og Reyðarfjarðar. Meginmarkmið friðlýsingarinnar er að vernda landsvæði þar sem er sérstætt gróðurfar, fjölbreytilegt landslag, merkar jarðminjar, búsetuminjar og vinsælt útivistarsvæði á austasta hluta landsins.Tillaga að friðlýsingu Gerpissvæðisins er hluti af átaki í friðlýsingum sem kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Gerpissvæðið var tilnefnt á náttúruverndaráætlun 2009-2013 með það að markmiði að vernda búsvæði nokkurra sjaldgæfra æðplöntutegunda sem þar finnast en svæðið býr yfir sérstæðu gróðurfari sem einkennist af snjódældargróðri. Markmiðið var að tryggja búsvæði tegunda til að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni í samræmi við innlend markmið sem og markmið Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni og evrópska stefnumótun um plöntuvernd. 

Samkvæmt skráningu Náttúrufræðistofnunar eru búsvæði sjaldgæfra æðplantna enn þau sömu/áþekk innan Gerpissvæðisins og verndargildi svæðisins hátt hvað það snertir.

Dæmi um tegundir æðplantna á válista sem hafa fundist á svæðinu eru stinnasef (VU), skógelfting (VU) og lyngbúi (VU). Auk þess eru fundarstaðir fjölmargra sjaldgæfra æðplöntutegunda (fjöllaufungur, lensutungljurt, dúnhulstrastör, hagastör, sóldögg, álftalaukur, mýraberjalyng, bjöllulilja, sifjarsóley (nú VU) og bergsteinbrjótur). Allnokkur breiða af sjávarfitjungi, forgangsvistgerð, er kortlögð við Kirkjuból í Vöðlavík. Víkurvatn á heiðinni yfir til Vöðlavíkur er skráð sem laukavatn sem er forgangsvistgerð. 

Á Gerpissvæðinu er eitt mikilvægt fuglasvæði, Gerpir sjálfur, en þar er stór fýlabyggð. Meðal sjaldgæfra fugla sem verpa eða hafa orpið eru örn (1 gamalt óðal) og fálki (1-2 óðul).

Elstu jarðlög á Austurlandi, um 14 milljón ára gömul, finnast á Gerpissvæðinu og við Brúnavík á Víknaslóðum. Á Gerpissvæðinu eru þessi jarðlög tengd Gerpismegineldstöðinni. Meðal annars eru þar litrík líparíthraun (Gerpisrýólít) sbr. m.a. svæði nr. 650 á náttúruminjaskrá, og þykkt gjóskulag með plöntusteingerfingum (Barðatangatúff).

Í heild hefur Gerpissvæðið hátt verndargildi sem byggir á mikilvægi búsvæða á svæðinu en einnig öðrum þáttum s.s. jarðminjum, landslagi, útivist, upprunaleika og menningarsögu.

Áform um friðlýsingu eru kynnt í samræmi við 2. mgr. 38. gr. náttúruverndarlaga en gert er ráð fyrir að svæði sem ekki eru á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár skulu kynnt sérstaklega. Að kynningartíma loknum tekur Umhverfisstofnun saman umsögn um framkomnar athugasemdir við áformin og skilar til umhverfis- og auðlindaráðherra. Að þeim tíma liðnum munu Umhverfisstofnun, sveitarfélagið Fjarðabyggð og fulltrúar landeigenda vinna drög að friðlýsingarskilmálum og leggja fyrir rétthafa lands og aðra sem hagsmuna eiga að gæta. Að því loknu mun stofnunin auglýsa fyrirhugaða friðlýsingu í þrjá mánuði þar sem öllum gefst kostur á gera athugasemdir við framlagða tillögu. 

Tillaga að friðlýsingarmörkum miðast við hnitsett mörk sbr. meðfylgjandi kort

Kort af svæðinu
Hnitaskrá Gerðissvæðis