Umhverfistofnun - Logo

Gerpissvæðið

 

Áform um friðlýsingu Gerpissvæðisins í Fjarðabyggð

Umhverfisstofnun, ásamt sveitarfélaginu Fjarðabyggð og í samstarfi við landeigendur, kynnir hér með áform um friðlýsingu Gerpissvæðisins, milli Norðfjarðar og Reyðarfjarðar. Áformin eru kynnt í samræmi við ákvæði 36. og 38. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013. Meginmarkmið friðlýsingarinnar er að vernda landsvæði þar sem er sérstætt gróðurfar, fjölbreytilegt landslag, merkar jarðminjar, búsetuminjar og vinsælt útivistarsvæði á austasta hluta landsins. Einnig er markmið friðlýsingarinnar að tryggja búsvæði tegunda til að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni í samræmi við innlend markmið sem og markmið Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni og evrópska stefnumótun um plöntuvernd.

Gerpissvæðið er á náttúruverndaráætlun 2009-2013 sem samþykkt var á Alþingi, með það að markmiði að vernda búsvæði nokkurra sjaldgæfra æðplöntutegunda sem þar finnast en svæðið býr yfir sérstæðu gróðurfari sem einkennist af snjódældargróðri. Samkvæmt skráningu Náttúrufræðistofnunar eru búsvæði sjaldgæfra æðplantna enn þau sömu/áþekk innan Gerpissvæðisins og verndargildi svæðisins hátt hvað það snertir. Auk fjölmargra sjaldgæfra plöntutegunda eru þar plöntur á válista, svo sem stinnasef, skógelfting og lyngbúi. Allnokkur breiða af sjávarfitjungi sem er forgangsvistgerð er kortlögð við Kirkjuból í Vöðlavík. Einnig er Víkurvatn skráð sem laukavatn sem er forgangsvistgerð. Gerpissvæðið er einnig á náttúruminjaskrá.

 Gerpir er skilgreindur sem mikilvægt fuglasvæði á Íslandi og alþjóðlega, einkum vegna stórrar fýlabyggðar sem þar er, en tegundin er skráð í hættu. Meðal sjaldgæfra fugla sem verpa eða hafa orpið eru örn og fálki. Einnig er áformað að friðlýsingin taki til Seleyjar í mynni Reyðarfjarðar. Lundabyggð er í Seley og einnig er þar talsvert æðarvarp, og telst hún alþjóðlega mikilvæg sjófuglabyggð (≥10.000 pör).

 Elstu jarðlög á Austurlandi, um 14 milljón ára gömul, finnast á Gerpissvæðinu og eru þessi jarðlög tengd Barðsneseldstöðinni. Meðal annars eru þar litrík líparíthraun (Gerpisrýólít) og þykkt gjóskulag með plöntusteingerfinum.
Mynd: Árni Geirsson - Horft niður í Vöðlaví
 Í Hellisfirði og Viðfirði er að finna töluvert af kóralþörungum, sem eru mikilvæg búsvæði fyrir aðrar lífverur og hafa mjög hátt verndargildi.
 Í heild hefur Gerpissvæðið hátt verndargildi sem byggir á mikilvægi búsvæða á svæðinu, jarðminjum, landslagi, útivist, upprunaleika og menningarsögu.

 Tillaga að mörkum svæðisins miðast við hnitsett mörk skv. hnitaskrá og eru birt á korti. Friðlýsingin miðar að því að varðveita einkenni og sérstöðu svæðisins. Í auglýsingum um friðlýsingar er heimilt að kveða nánar á um takmarkanir sem leiða af friðlýsingunni. Þá er jafnframt heimilt að kveða á um að afla skuli leyfis Umhverfisstofnunar til athafna og framkvæmda sem áhrif geta haft á verndargildi viðkomandi svæðis.

 Áform um friðlýsinguna eru kynnt í samræmi við 2. mgr. 38. gr. náttúruverndarlaga en gert er ráð fyrir að svæði sem ekki er á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár skuli kynnt sérstaklega. Í kjölfar kynningartímans munu fulltrúar Umhverfisstofnunar, Fjarðabyggðar, landeiganda og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins vinna drög að friðlýsingarskilmálum og leggja fyrir þá sem hagsmuna eiga að gæta. Fyrirhuguð friðlýsing mun að lokum verða auglýst opinberlega í þrjá mánuði og öllum gefinn kostur á gera athugasemdir við framlagða tillögu.

 Frestur til að skila athugasemdum við áformin er til og með 1. desember 2020. Athugasemdum má skila á eyðublaði hér fyrir neðan, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða senda með pósti til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.
 Umhverfisstofnun vekur athygli á því að innsendar athugasemdir eru hluti af stjórnsýslumáli og kunna að verða afhentar þriðja aðila sé þess óskað í samræmi við upplýsingalög nr. 140/2012.

 Frekari upplýsingar veita Lilja Bjarnadóttir, liljab@ust.is  og Hildur Vésteinsdóttir, hildurv@umhverfisstofnun.is með tölvupósti eða í síma 591-2000.

Tengd skjöl:
Hnitaskrá

Senda ábendingu

Upplýsingar

Skrár