Mývatn og Laxá

Mývatn  er um 32 km2 að stærð. Það er mjög vogskorið og í því eru um 50 eyjar og hólmar. Meðaldýpi vatnsins er 2,5 m og mesta náttúrulega dýpi aðeins um 4 m. Lífríki Mývatns er einstætt og er nafn vatnsins dregið af þeim aragrúa mýs sem þar er. Talið að þar haldi sig fleiri andategundir en á nokkrum öðrum stað á jörðinni. Í Mývatnssveit er fjölbreytni í náttúrufari mikil og landslag sérstætt, enda mótað af miklum eldsumbrotum.

 

Mývatn og Laxá eru upphaflega friðlýst með lögum um verndun Mývatns og Laxar í Suður-Þingeyjarsýslu árið 1974.  Mývatn og Laxá eru nú vernduð samkvæmt sérstökum lögum nr. 97 frá 9. júní 2004. Markmið laganna er að stuðla að náttúruvernd í samræmi við sjálfbæra þróun og tryggja að vistfræðilegu þoli svæðisins verði ekki stefnt í hættu af mannavöldum.

 

Lögin eiga að tryggja vernd líffræðilegrar fjölbreytni á víðáttumiklu vatnasviði Mývatns og Laxár ásamt verndun jarðmyndana og landslags með virkri náttúruvernd, einkum með tilliti til vísindalegra, félagslegra og fagurfræðilegra sjónarmiða.

 

Ákvæði laganna taka til Mývatns og Laxár með eyjum, hólmum og kvíslum, allt að ósi árinnar við Skjálfandaflóa, ásamt 200 m breiðum bakka meðfram Mývatni öllu og Laxá báðum megin. Auk þess ná lög þessi til eftirtalinna votlendissvæða, ásamt 200 m bakka meðfram vötnum, ám og lækjum: Sortulækjar, Geirastaðahrauns, Sandvatns ytra, Belgjarskógar, Slýja, Neslandatanga, Framengja, Krákár frá Strengjabrekku að Laxá, Grænavatns, Helluvaðsár og Arnarvatns, ásamt votlendi sem því tilheyrir. Þá taka lögin enn fremur til vatnsverndar á vatnasviði Mývatns og Laxár.

 

Einn starfsmaður starfar allt árið á Mývatnsstofu en fleiri bætast við yfir sumartímann í landvörslu. Sérfræðistörf um verndarsvæðin Mývatn og Laxá eru megin svarfssvið hans svo og yfirumsjón með landvörslu yfir sumartímann.

Heimilisfang: Hraunvegur 8, 660 Mývatn
Sími: 591 2000

Svæðið var upphaflega verndað með lögum um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu nr. 36/1974. Í dag er svæðið friðað með lögum um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu nr. 97/2004.

Styrkleikar

Á svæðinu starfar sérfræðingur á vegum Umhverfisstofnunar. Innviðir svæðisins eru þó nokkrir. Svæðið er mikið nýtt til rannsókna enda er þar mjög fjölbreytt dýralíf ásamt sérstæðum jarðmyndunum og fjölmörgum mikilvægum vistkerfum. Svæðið er Ramsar svæði og því alþjóðlega mikilvægt. Verndaráætlun hefur verið samþykkt og gefin út. Reglugerð um verndun Mývatns og Laxár var sett sumarið 2012.

Veikleikar

Mikill fjöldi ferðamanna kemur að Mývatni. Svæðið hefur að geyma viðkvæm vistkerfi og má þar t.d. nefna búsvæði kúluskíts sem er sérstætt á heimsvísu, samspil rykmýs, fuglalífs, fiska og hornsíla ásamt jarðhitasvæðum og jarðmyndunum. Svæðið hefur að geyma viðkvæm gróðursvæði og viðkvæmar jarðmyndanir.

Ógnir 

 • Kúluskítur sem er friðlýst tegund virðist vera horfinn úr Mývatni en hugsanlega gæti þetta vaxtarform þörungsins komið aftur. Talið er að næringarefnaauðgun, sem er tilkomin af mannavöldum, sé ein skýring á hvarfi kúluskíts.
 • Bleikja er á undanhaldi á svæðinu. 
 • Næringarefnaauðgun má m.a. rekja til fráveitu sem vinna þarf úrbætur á.
 • Mikill ferðamannastraumur setur auka álag á vistkerfi svæðisins bæði hvað varðar fráveitur og ágang á náttúruverndarsvæði. 

 Tækifæri 

 • Styrkja þarf innviði svæðisins, mörgum gönguleiðum er ábótavant, m.a. möguleikum á hringleið í kringum vatnið. 
 • Skoða má tækifæri hvað varðar hjólreiðastíga. 
 • Salernisaðstaða. 
 • Þolmarkagreining. 
 • Tryggja þarf að vatnsgæðum sé ekki raskað.
 • Grípa þarf til endurheimtar á kúluskít ef hægt er. 
 • Tryggja þarf að virkjanaáform hafi ekki áhrif á lífríki svæðisins, enda er það einstakt á heimsvísu. 
 • Vinna þarf eftir þeim áætlunum sem fram koma í verndaráætlun og hrinda þeim verndarráðstöfunum í framkvæmd sem eru brýnastar. 
 • Stuðla þarf að samvinnu við sveitarfélög um fráveitumál svæðisins. 
 • Gera þarf samning við rannsóknaraðila varðandi vöktun og fyrirkomulag hennar innan verndarsvæðis Mývatns t.a.m. rannsóknir á áhrifum áburðarefna á vistkerfi Mývatns og áhrifum ferðamennsku.
 • Vinna skal sérstaka aðgerðaráætlun í samvinnu við sveitarfélag og landeigendur um veiðar á tegundum sem geta haft skaðleg áhrif á verndarstöðu fuglalífs á verndarsvæðinu.
HvaleyrarholtHVALEYRARH_PM10_AV10MINSvifryk18 µg/m³1HvaleyrarholtHVALEYRARH_H2S_AV10MINBrennisteinsvetni-1 µg/m³1HvaleyrarholtHVALEYRARH_SO2_AV10MINBrennisteinsdíoxíð-0 µg/m³1