Losun eftir flokkum

Samkvæmt skuldbindingum Íslands skal losun gróðurhúsalofttegunda vera skipt niður á flokka eftir uppsprettum í samræmi við skiptingu Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (Intergovernmental Panel on Climate Change – IPCC). Flokkarnir eru: orka (jarðeldsneytisbruni og jarðvarmafyrirtæki); iðnaðarferlar og efnanotkun (málmframleiðsla, notkun ýmissa efna eins og leysiefna, kælimiðla og flugelda), landbúnaður (húsdýr og áburðarnotkun), úrgangur (urðun úrgangs, meðhöndlun skólps og jarðgerð) og landnotkun, breytt landnotkun og skógrækt (Landuse, landuse change and forestry – LULUCF). Losun frá LULUCF fellur ekki undir skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum. Binding kolefnis úr andrúmslofti sem á sér stað t.d. við skógrækt er talin fram undir flokknum LULUCF og getur Ísland talið fram ákveðna bindingu frá LULUCF að einhverju leyti á móti losun frá öðrum geirum, en það er að mjög takmörkuðu leyti. Losun frá alþjóðaflugi og alþjóðasiglingum er metin og kemur fram í losunarbókhaldinu, en er ekki hluti af losun sem telur gagnvart ESB og UNFCCC.

Hér fyrir neðan er umfjöllun um heildarlosun Íslands, sem inniheldur losun frá öllum uppsprettum sem taldar voru upp hér að ofan, þar með talið losun frá staðbundnum iðnaði sem fellur undir ETS kerfið.

Ef losun Íslands er skoðuð eftir uppsprettum þeirra, án LULUCF, sést að mest losnar af gróðurhúsalofttegundum frá iðnaðarferlum, næst mest frá orku, svo landbúnaði og minnst frá meðhöndlun úrgangs. Hlutfall losunar frá iðnaðarferlum af heildarlosun Íslands, án LULUCF, jókst frá 27% árið 1990 í 43% árið 2017.

Mynd 7 Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda 1990-2017, án LULUCF (kt CO2-ígildi).– sama og á fyrsta flipa – losun íslands

 

Losun frá orku

Þróun í orku

1990-2017:            +2%
2005-2017:   -13%
2016-2017:    +3%

Aðal gróðurhúsalofttegundin sem losnar frá orkugeiranum er CO2, sem hefur verið 97-98% af losun geirans síðan 1990. N2O losun hefur verið 2-3%, og losun CH4 hefur verið minni en 0.5% (í CO2-ígildum). Árið 2017 var heildarlosun gróðurhúsalofttegunda sem féll undir orku flokkinn 1907 kt. CO2-íg, eða 40% af heildarlosun Íslands, án LULUCF. Losun frá orku hefur aukist um 2% frá 1990, sem þá var 1867 kt. CO2-íg. Samgöngur eru megin uppspretta losunar í orkuflokknum, og samsvaraði losunin 975 kt. CO2-íg. árið 2017 eða 51% af losuninni. Fiskiskip er næst stærsta uppsprettan og var losunin 533 kt. CO2-íg. eða 28% af heildarlosuninni frá orku árið 2017.

Þó svo að jarðefnaeldsneyti sé ekki orkugjafinn í jarðvarmavirkjunum þá losna gróðurhúsalofttegundir frá jarðvarmavirkjunum og árið 2017 var heildarlosunin 149 kt. CO2-íg. frá jarðvarmavirkjunum eða 8% af losuninni frá orku. Losun frá jarðvarmavirkjunum hefur aukist um 142% frá árinu 1990, en þá var losunin 62 kt. CO2-íg.

Mynd 1 Skipting losunar frá orku 1990 – 2017 (kt CO2-ígildi).

 

Losun frá iðnaðarferlum og efnanotkun

Þróun í iðnaðarferlum

1990-2017:       +113% 
2005-2017:       +111%
2016-2017:        +3%

Iðnaðarferlar og efnanotkun var uppspretta 43% af losun Íslands, án LULUCF, eða 2039 kt. CO2-íg., sem er 113% aukning í losun frá árinu 1990, þegar hún var 958 kt. CO2-íg. Stærsti hluti losunarinnar er tilkomin vegna framleiðslu á hráefnum, málmum o.fl., þegar CO2 og aðrar gróðurhúsalofttegundir eins N2O og PFC losna. Einnig losnar HFC, sem er notað í stað ósóneyðandi efna og SF6 frá rafbúnaði. Árið 2017 var 89% af losun frá iðnaðarferlum vegna framleiðslu málma, og þá sérstaklega álframleiðslu.

Stærsti hluti losunar, eða  89%, frá iðnaðarferlum féll undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir árið 2017, sem felur í sér að rekstraraðilar greiða eina losunarheimild fyrir hvert tonn af CO2-íg. sem þeir losa.

Mynd 2 Skipting losunar frá iðnaðarferlum og efnanotkun 1990 – 2017 (kt CO2-ígildi).

 

Losun frá landbúnaði

Þróun í landbúnaði

1990-2017: -2%
2005-2017: +11%
2015-2017:     +1%

Losun frá landbúnaði árið 2017 var 578 kt. CO2-íg. eða 12% af heildarlosun Íslands, án LULUCF. 99% af losun frá landbúnaði er vegna losunar á CH4 og N2O. 85% af CH4 losununni er tilkomin vegna iðragerjun og 78% af N2O losuninni vegna nytjajarðvegs.

Losun frá landbúnaði veltur að mestu á stærð bústofna, sérstaklega nautgripa og sauðfé. Árið 2017 var losun frá landbúnaði 2% minni en árið 1990, og hefur hún aukist um 11% frá árinu 2005 til 2017 vegna stækkun bústofns. Magn köfnunarefnis í áburði skiptir þó einnig máli þegar kemur að losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði.  

Mynd 3 Skipting losunar frá landbúnaði 1990 – 2017 (kt CO2-ígildi).

 

Losun frá úrgangi

Þróun í úrgangi

1990-2017: +31%
2005-2017:      -18%
2016-2017:      -3%

Losun frá úrgangi árið 2017 var 205 kt. CO2-íg. eða 5% af heildarlosun Íslands, án LULUCF. 89% af losun frá úrgangi er vegna losunar frá urðun, en restin kemur frá meðhöndlun skólps, brennslu og jarðgerð.

Árið 2017 var losun frá úrgangi 27% meiri en árið 1990, þó svo hún hafi minnkað um 18% síðan 2005. Samdráttinn má helst rekja til aukningar í endurvinnslu og söfnunar á metani á tveimur urðunarstöðum á Íslandi.

Mynd 4 Skipting losunar frá úrgangi 1990 – 2017 (kt CO2-ígildi).