Umhverfistofnun - Logo

Olíumengaður jarðvegur

Leiðbeiningar um meðferð á olíumenguðum jarðvegi

Markmið leiðbeininganna er að takmarka þann skaða sem getur hlotist af því þegar olíuefni menga jarðveg.

Í leiðbeiningabæklingnum er fjallað um mengun jarðvegs af völdum olíuefna og hvernig unnt er að hreinsa jarðveginn. Helstu atriði í honum eru:

  • Bæklingurinn fjallar eingöngu um jarðvegsmengun af völdum eldsneytisolíu, smurolíu eða skyldra olíuefna, t.d.: bensíns, dísilolíu, svartolíu, steinolíu, gasolíu og vökvakerfisolíu (glussaolíu). Hann fjallar ekki um annars konar olíumengun, t.d olíu sem inniheldur halógenefni, svo sem PCB.
  • Bæklingurinn lýsir útbreiðslu olíumengunar í umhverfinu og hvernig meta megi hvenær og hvernig mengunin geti verið hættuleg umhverfi og heilsu fólks. Einnig er fjallað almennt um eldsneytisolíur, t.d. efnainnihald þeirra og eiginleika. Fjallað er um þær hættur sem fylgja olíumengun í umhverfinu, beinan og óbeinan heilsuskaða, svo sem vegna eituráhrifa, eldhættu og vinnu við hreinsunina.
  • Kynnt eru þrjú vinnuferli sem nota skal eftir að olíumengunar í jarðvegi hefur orðið vart. Vinnuferli 1 sýnir hvernig bregða skuli við olíumengun í jarðvegi. Frummat á menguninni fer fram samkvæmt vinnuferli 2. Eftir þessu frummati er ákveðið hvort aðgerða sé þörf, bæði með aðstoð skynmats og viðmiðunargilda. Sé þörf á aðgerðum fer umfang þeirra eftir áhættumati samkvæmt vinnuferli 3.
  • Kynnt eru úrræði við olíumengun, bráðaúrræði ef þörf er á skjótum aðgerðum til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu mengunar, og aðgerðir þegar bráðahætta er liðin hjá og ráðrúm gefst til hreinsunar. Lýst er mismunandi aðferðum og möguleikum til að koma fyrir jarðhreinsistöðvum þar sem nauðsynlegt er. Þar er olíumenguðum jarðvegi safnað saman og gerðar viðeigandi ráðstafanir sem stuðla að lífrænu niðurbroti olíuefnanna. Urðunarstaðir fyrir úrgang eru í mörgum tilfellum kjörnir til að koma fyrir jarðhreinsistöð. Nauðsynlegt er hins vegar að gerðar verði ráðstafanir til að mögulegt sé að byggja slíkar stöðvar annars staðar á skömmum tíma ef upp koma vandamál með olíumengaðan jarðveg.
  • Tilmælum er beint til sveitarfélaga að þau tryggi sér aðgang að slíkum jarðhreinsistöðvum.
  • Fjallað er um mælingar og sýnatöku úr olíumenguðum jarðvegi.
  • Hreinsun jarðvegs er lýst fræðilega og sýnd dæmi hvernig staðið er að henni tæknilega með uppbyggingu hreinsihaugs.
  • Sett eru fram viðmiðunargildi þegar jarðvegur telst vera hreinsaður.
Leiðbeiningar þessar voru unnar í samvinnu umhverfisráðuneytisins, Hollustuverndar ríkisins [nú Umhverfisstofnun], heilbrigðisfulltrúa og annarra embættismanna sveitarfélaga svo og fulltrúa olíufélaga. Þær eru ætlaðar þeim sem fast við meðhöndlun, þar með talda hreinsun, mengaðs jarðvegs af völdum olíu. Markhópurinn er heilbrigðisfulltrúar, tæknimenn sveitarfélaga, umsjónarmenn urðunarstaða, starfsmenn olíufélaga og aðrir þeir sem málið varða.

Tengd skjöl