Vatnshlot

Flokkun vatns í vatnshlot er forsenda stjórnar vatnamála. Samkvæmt reglugerð nr. 535/2011, um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun skal skipta öllu vatni, bæði yfirborðsvatni og grunnvatni í vatnshlot. Sú flokkun er óháð stjórnsýslumörkum því að vatn getur runnið í gegnum fleiri en eitt sveitarfélag á leið sinni til sjávar. Álag af völdum mengunar eða annarra þátta getur haft þau áhrif að vatnshlotum fjölgi. Þannig getur þurft að skipta einni á upp í tvö vatnshlot, þ.e. lítt snortinn hluta og raskaðan/mengaðan hluta. 

Álagsgreining vatnshlota

Greina skal allt álag sem hefur eða getur haft neikvæð áhrif á vatnshlot. Síðan skal meta hvaða álagsþáttur hefur mest áhrif, hver næst mest o.s.frv. Einnig skal lýsa með hvaða hætti hver álagsþáttur hefur neikvæð áhrif á vatnshlot svo að hægt sé að undirbúa aðgerðir til að draga úr eða koma í veg fyrir viðkomandi álagsþátt. 

Fyrir hvert vatnasvæði skal setja fram umhverfismarkmið um að draga úr álagi og bæta eða viðhalda ástandi vatns. Samkvæmt lögum um stjórn vatnamála skal markmiðunum náð eigi síðar en 6 árum eftir að fyrsta vatnaáætlun hefur verið staðfest, eða árið 2021. 

Vistfræðileg gæðaflokkun vatnshlota 

Skilgreining á vistfræðilegu ástandi vatns nær til flóru og –fánu, næringarefnainnihalds, þátta eins og seltu og hitastig, efnamengun, vatnsmagn, rennslismagn, vatnsdýpi og lögun vatnsfarvegar. Flokkunarkerfi fyrir vistfræðilegt ástand yfirborðsvatns gerir ráð fyrir fimm gæðaflokkum:

  • Mjög gott ástand/náttúrulegt ástand 
  • Gott ástand
  • Ekki viðunandi ástand 
  • Slakt ástand 
  • Lélegt ástand

Flokkunarkerfi fyrir grunnvatn miðar við efnaástand og magnstöðu, þar sem flokkar eru tveir: 

  • Gott
  • Slakt