Umhverfistofnun - Logo

Bætt úrgangstölfræði


Áreiðanleg gögn lykilatriði við úrgangsstjórnun 

Úrgangsstjórnun og markmiðasetning verður markvissari ef hún byggir á góðum gögnum. 

Úrgangstölfræði er safnað í gegnum gagnagátt Umhverfisstofnunar. Heildarmagn og ráðstöfun úrgangs er birt á vefsíðu stofnunarinnar allt aftur til ársins 2014. Einnig má þar sjá tölfræði ýmissa úrgangsflokka og markmið endurvinnslu og endurnýtingar.  

Hagstofan notar gögn frá Umhverfisstofnun og birtir á vefsíðu sinni

Áskoranir tengdar skráningu og aðgengi

Áskorun hefur falist í því að fá áreiðanleg gögn um uppruna úrgangs. 

Skráning skv. úrgangsflokkakerfi Evrópu (EWC-Stat) hefur reynst erfið. Aðilar sem meðhöndla úrgang hafa t.d. ekki sama skilning á því hvernig skuli skrá hann í úrgangsflokka.

Það er mikil þörf á því að auka aðgengi almennings og sveitarfélaga að úrgangstölfræði ákveðinna svæða á gangvirkan, áreiðanlegan og skýran hátt. 

Best væri ef skráning úrgangsgagna væri framkvæmd í rauntíma svo hægt væri að fylgjast með flæði úrgangs í gegnum alla virðiskeðju úrgangs á Íslandi.

Stefna í úrgangsmálum

Aðgerð 21 í stefnu umhverfis- og auðlindaráðherra í úrgangsmálum (sjá á bls. 103) er sett til að mæta þessum áskorunum og bæta úrgangstölfræði á Íslandi. 

Markmið aðgerðarinnar er að 

 • Auka áreiðanleika upplýsinga um uppruna úrgangs sem fellur til á Íslandi
 • Bæta yfirsýn yfir flæði úrgangsstrauma
 • Auka miðlun upplýsinga um úrgang

Umhverfisstofnun er ábyrgðaraðili þessarar aðgerðar og hefur unnið að framkvæmd hennar allt frá útgáfu stefnunnar í júní 2021.

Fyrsta skrefið

Fyrsta skrefið var tekið í júní 2021 þegar Umhverfisstofnun sendi út verklýsingu í svokallaða verðkönnun til að fá tilboð frá ráðgjöfum til að framkvæma þarfagreiningu. Gefin var frestur fram í ágúst.   

 Samráð var haft við Samband íslenskra sveitarfélaga í gegnum úrgangstölfræðihóp Sambandsins og Umhverfisstofnunar.

Verklýsingin leiddi til þess að í september 2021 gerði Umhverfisstofnun samning við KPMG á Íslandi um gerð kortlagningar. 

Kortlagning og þarfagreining KPMG

KPMG, sem ráðgjafi stofnunarinnar, sá um framkvæmd greiningar á söfnun, flæði og skráningu úrgangsgagna.

 1. Fyrsti liður verkefnisins var að kortleggja flæði úrgangsstrauma á Íslandi í dag. Í því fólst að kanna hvaða kerfi er notað við skráningu úrgangsgagna.
 2. Annar liður verkefnisins fólst í því að skoða hvernig gagnasöfnun um úrgang er háttað í nágrannalöndunum.
 3. Þriðji liðurinn var að greina hvers konar kerfi myndi henta til þess að halda utan um upplýsingar um úrgang í allri virðiskeðju úrgangs á Íslandi. 

Spurningakönnun

KPMG stóð fyrir spurningarkönnun á meðal þeirra sem koma að meðhöndlun úrgangs á Íslandi. 

Með meðhöndlun úrgangs er átt við:

 • Söfnun
 • Geymslu
 • Böggun
 • Flokkun
 • Flutning
 • Endurnotkun
 • Endurnýtingu
 • Pökkun 
 • Förgun 

Þar með talið eftirlit með slíkri starfsemi og umsjón með förgunarstöðum eftir að þeim hefur verið lokað.  

Við yfirferð könnunarinnar var virkt samráð við úrgangstölfræðihóp Sambandsins og Umhverfisstofnunar.

Könnuninni var m.a. beint að aðilum með starfsleyfi fyrir meðhöndlun úrgangs, úrvinnsluaðilum gagna, byggðasamlögum, sveitarfélögum og fleirum. 

Frestur til að svara könnunni var framlengdur til að mæta óskum þátttakenda og stóð til lok dags 19. nóvember 2021.  

Gjaldtaka einnig í skoðun

Á sama tíma vann Samband íslenskra sveitarfélaga að framkvæmd aðgerðar 23 í stefnu umhverfis- og auðlindaráðherra í úrgangsmálum (sjá á bls. 105). 

Sambandið fékk verkfræðistofuna Eflu til að vinna greiningu á mögulegum útfærslum á álagningu gjalds fyrir meðhöndlun úrgangs eða "borgaðu þegar þú hendir" (BÞH) kerfi .

Kynningarfundur um spurningarkönnun

2. nóvember 2021 fór fram stafrænn kynningarfundur um spurningarkönnunina. Þar kynnti Hafþór Ægir Sigurjónsson, hjá KPMG, spurningarkönnunina og svaraði spurningum frá þáttakendum ásamt sérfræðingi frá Umhverfisstofnun. Markmið fundarins var að aðstoða rekstraraðila við að veita sem nákvæmastar upplýsingar í könnuninni. 

Þátttakendur á fundinum voru rúmlega 30.

Eftir að hafa lokið greiningu á niðurstöðum könnunarinnar tók KPMG viðtöl við ýmsa aðila í virðiskeðju úrgangs á Íslandi. Viðtölin voru svo greind enn frekar til að koma auga á þau vandamál sem núverandi kerfi stendur frammi fyrir.

Kerfi um úrgangstölfræði voru einnig greind. Ákveðið var að skoða nánar uppbyggingu kerfis í Danmörku sem unnið hefur verið að frá árinu 2016.

Kynningarfundur um niðurstöður könnunar

Verkefni KPMG lauk þann 10. janúar 2022 með loka skilum á skýrslu. KPMG hélt kynningu á niðurstöðunum á opnum stafrænum fundi þann 21. desember 2021. 

Þátttakendur á fundinum voru rúmlega 40.

Skýrsla KPMG um verkefni kortlagningar á söfnun, flæði og skráningu úrgangsgagna með þarfagreiningu á kerfi úrgangstölfræði sem uppfyllir skilyrði Íslands.

Næstu skref

Næstu skref Umhverfisstofnunar er að rýna skýrslu KPMG og þær tillögur sem þar koma fram. 

Samráð verður haft við úrgangstölfræðihóp Sambands íslenskra sveitarfélaga og Umhverfisstofnunar um næsta lið verkefnisins. Verður það að taka saman útborðsgögn og fara í útboð fyrir verkefni innleiðingar eða uppsetningar á bættu kerfi úrgangstölfræði á Íslandi.

Umhverfisstofnun mun hefja vinnu við greiningu á endurnotkun á Íslandi. Þá verður kortlagning og greining á þeim aðilum sem annars vegar endurnota efni sem annars hefði orðið að úrgangi og þeirra sem meðhöndla úrgang á þann hátt að hann hættir að vera úrgangur (undirbúningur fyrir endurnotkun). Stefna Umhverfisstofnunar er að fá tölfræði endurnotkunar inn á sama mælaborð og úrgangstölfræði.

Stofnunin mun hefja vinnu við mótun á gagnagrunni fyrir spilliefni sem part af nýju upplýsingakerfi.

Umhverfisstofnun leiðir einnig verkefni um framkvæmd könnunar um umfang matarsóunar árið 2022.

Umhverfisstofnun mun þannig, í samstarfi við aðra aðila sem koma að meðhöndlun úrgangs og notkun úrgangsgagna, vinna áfram að verkefni bættrar úrgangstölfræði árið 2022.