Umhverfistofnun - Logo

Paraben

Paraben eru flokkur efna sem eru m.a. notuð sem rotvarnarefni í snyrtivörum fyrir bæði börn og fullorðna. Ástæðan fyrir því að paraben eru notuð í snyrtivörum er að þau hindra bakteríuvöxt og viðhalda gæðum vörunnar til lengri tíma, þ.e. rotverja hana.

Af hverju er það varasamt?

Parben fer auðveldlega í gegnum húð. Rannsóknir hafa sýnt að paraben raskar hormónastarfsemi og geta mögulega stuðlað að brjóstakrabbameini. Áhrifin aukast með stærð sameindarinnar.

Leyfilegur hámarksstyrkur parabena í snyrtivörum er háður takmörkunum og var lækkaður árið 2014 eftir skoðun vísindanefndar Evrópusambandsins um neytendavörur. Þetta á við um eftirtaldar fjórar gerðir parabena: metýlparaben, etýlparaben, própýlparaben og bútýlparaben. Fimm aðrar gerðir parabena voru bannaðar í framleiðslu á snyrtivörum 30. október 2014 og frá og með 30. júlí 2015 mátti ekki selja snyrtivörur sem framleiddar voru fyrir þann tíma og innihalda eitt eða fleiri af þeim parabenum. Um er að ræða isóprópýlparaben, ísóbútýlparaben, fenýlparaben, benzýlparaben og pentýlparaben.

Ef neytandinn vill forðast snyrtivörur sem innihalda paraben þá eru vörur án parabena til á markaði. Snyrtivörur með umhverfismerkinu Svaninum innihalda ekki paraben og hægt er að nálgast þær m.a. í ýmsum apótekum og heilsubúðum.

Í hvað er efnið notað?

Paraben eru notuð í snyrtivörur, s.s. ýmis krem, áburð, hárvörur, sólarvarnarefni og andlitsfarða.