Umhverfistofnun - Logo

Jól og áramót

Jólin eru hátíð ljóss og friðar en líka hátíð neyslunnar. Að mörgu er að hyggja við val á jólagjöfum og um að gera að nota ímyndunaraflið við innpökkunina. Á aðfangadagskvöld berst mikið magn af umbúðum inn í stofur landsins og þá er mikilvægt að flokka og senda þær til endurvinnslu.

Þegar kemur að umhverfisvænna jólahaldi er mikilvægt að við veljum gæði umfram magn. Það getur oft borgað sig að leggja aðeins meira í gjafirnar og fá þá kannski fleiri til að leggja í púkkið en að kaupa eitthvað ódýrt sem eyðileggst fljótt. Þá væri t.d. hægt að leita eftir umhverfisvottuðum gjöfum (Svanurinn, Evrópublómið).

Skemmtilegar gjafir eru líka upplifanir. Í dag eru því miður ansi margir að kaupa gjafir handa ástvinum sínum sem þeir hafa ekki hugmynd um hvort þau vilji eða þarfnist. Í stað þess að kaupa enn eitt dótið í dótahrúguna hjá krökkunum, hvað með að gefa þeim upplifun í staðinn. Fara með frændsystkinin í bíó, leikhús eða eitthvað annað sem þau gætu haft meira gaman af. Þá búum við frekar til gæðastundir með okkar fólki fremur en að kaupa enn eitt dótið sem lendir í ruslinu innan skamms.

Grænni jól

 • Gefðu heimatilbúna gjöf. Hvar liggja hæfileikarnir? Í prjónaskap, sultugerð eða listum?
 • Gefðu upplifun. Bjóddu í leikhús, á námskeið eða í ferð með útivistarfélagi.
 • Gefðu áskrift. Þekkirðu sjónvarpssjúkling? Gefðu honum áskrift að góðri sjónvarpsrás og tónlistarunnandanum áskrift að tónlistarvefverslun.
 • Gefðu bágstöddum. Öll þekkjum við fólk sem á allt og vantar ekkert. Gefðu til góðs málefnis í þeirra nafni og sendu þeim kort sem útskýrir hvernig gjöfin mun nýtast til góðs.

Hver kannast ekki við að eiga allt of mikið af innpökkunarefni inni í skáp, hættum að bæta við í hrúguna og:

 • Notum t.d. einfaldan maskínupappír sem auðveldara eru að endurvinna
 • Endurnýtum dagblöð, tímarit eða plaköt sem gjafapappír og útkoman getur orðið mjög frumlegur jólapakki.
 • Göngum vel frá pappírnum sem gjafirnar okkar voru í og notum aftur að ári.
 • Setjum tvær gjafir saman í eina með því að nota sjálfa gjöfina í innpökkunina, t.d. tauinnkaupapoka, trefla, sjöl og dúka.

Sá sem fær slíkan pakka, veit að meiri hugsun hefur farið í gerð hans og að þér er umhugað um hann með því að gera þitt til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum.

Hvernig jólatré?

Á Íslandi gildir að ef við ætlum að kaupa tré þá ætti það að vera ræktað á Íslandi og best er ef það hefur verið ræktað nálægt okkur. Kosturinn við íslenskt ræktuð jólatré er oft sá að skógræktarfélögin þurfa að grisja skógana á hverju ári svo við getum verið að kaupa tré sem hvort sem er þarf að fella.

Hægt er að kaupa erlend sígræn tré en ókosturinn við þau er að í einhverjum tilfellum eru þau ræktuð á stórum ökrum og notað til þess töluvert af eitri og efnum til að auka vöxt þeirra. Þessi tré þarf líka að flytja um langan veg til Íslands sem kostar eldsneyti og veldur losun gróðurhúsalofttegunda.

Margnota tré getur verið betri kostur séu þau notuð í tugi ára, þá eru umhverfisáhrifin frá framleiðslu þeirra orðin minni en losunin frá ræktun og förgun lifandi trjáa. Hér þarf að athuga að flest plasttréin eru framleidd í Asíu og unnin, eins og annað plast, úr olíu, framleiðslan er orkufrek og flytja þarf tréin um langan veg til Íslands. Þegar trjánum er hent verður það svo að plastúrgangi sem misgott getur verið að endurvinna, ef tréð er í fyrsta lagi flokkað til endurvinnslu.

Áramótin og flugeldar 

Áramót á Íslandi er líklega ein mest einnota hátíð landsins. Hattarnir, skrautið, innisprengjurnar og aðallega skoteldarnir gleðja okkur í stutta stund en því miður geta umhverfisáhrifin verið langvarandi.

Það sem gleður okkur við skoteldana er öll sú litadýrð sem fylgir þeim en þessir litir eru tilkomnir vegna mikillar hitunnar þeirra mismunandi efnasambanda sem eru notuð til að búa til skotelda. Efnasamböndin sem er að finna í skoteldum hafa marga mismunandi tilganga, sum eru eldsneyti eða bindiefni og svo eru það litarefnin sem gefa okkur fallega sýningu. Sum þeirra efna sem notuð eru flokkast sem þrávirk efni. Þessi efni brotna hægt niður í náttúrunni sem leiðir af sér að þau hafa mikinn hreyfanleika í umhverfinu en safnast svo helst saman í dýrunum sem eru ofarlega í fæðukeðjunni.

Þau efni sem eru hættulegust eru takmörkuð í notkun og ættu ekki að finnast yfir leyfilegum mörkum í skoteldum (sem eru yfirleitt mjög lágar hlutfallslegar þyngdir). Það stöðvar því miður ekki allt og áramótin 2010-2011 eru dæmi um slíkt tilvik þar sem HCB (hexaklóróbensen) greindist í háum styrk í andrúmslofti Reykjavíkur. HCB er þrávirkt lífrænt efni sem hefur verið notað í framleiðslu á sumum flugeldum þar sem það nýtist til þess að magna upp litina við sprengingu en notkun þess er með öllu bönnuð. Á þessum tíma leiddi það af sér að Umhverfisstofnun tók þátt í samevrópsku verkefni árið 2011 sem miðaði að því að fyrirbyggja þessa notkun til framtíðar. Niðurstöðurnar leiddu í ljós að HCB var til staðar í tveimur skoteldum.

Þungmálmalosun frá skoteldum getur verið mikil og er þar að ræða efni á borð við blý, kvikasilfur, sink, kopar, nikkel, króm og önnur efni. Þessi efni ýmist brotna ekki niður í nátúrunni eða eru þrávirk og safnast því fyrir í umhverfinu, dýrum og mönnum og geta þannig valdið skaða.

Svifryksmengun er einnig slæmur fylgifiskur flugeldanotkunar en ef ofangreind efni væru ekki í flugeldum þá myndi samt myndast svifryk vegna sprenginga flugeldanna. Áramótin 2017-2018 reyndust þau verstu hvað varðar magn svifryks af völdum flugelda. Hæsta skammtímagild svifryks sem mældist á höfuðborgarsvæðinu var 4.500 míkrógrömm á rúmmetra (µg/m3)  en það er hæsta gildi svifryksmælinga sem hefur mælst á höfuðborgarsvæðinu frá upphafi mælinga.

Heilsuverndarmörk fyrir svifryk eru 50 µg/m3 á sólarhring og var sólarhringsstyrkur svifryks allt að sjöfalt leyfilegt sólarhringsgildi á höfuðborgarsvæðinu (mælingar frá Grensásvegi) þessi áramót.

Helsti orsakavaldur þessa háa styrks (fyrir utan sjálfa flugeldanotkunina) var einkum veðurfar en það var mikill þurrkur í lofti auk veðrastillu. Því náði svifrykið að safnast upp og svífa um andrúmsloftið í lengri tíma sem leiddi til þess að svifryksmengun var mikil alveg fram á miðjan nýársdag. Í kjölfar þessarar auknu mengunar þurftu nokkrir einstaklingar að leita sér aðstoðar hjá lækni vegna öndunarerfiðleika.

Það er þó um að gera að njóta áramótanna og leyfa sér að skjóta aðeins upp en munum að gæði eru betri en magn. Vöndum valið á flugeldum, kaupum færri og njótum betur.  

Verum upplýst um áramótin.

Það er þó um að gera að njóta áramótanna og leyfa sér að skjóta aðeins upp en munum að gæði eru betri en magn. Til samanburðar keypti árið 2015 hver Íslendingur 1,8 kg af flugeldum samanborið við 1 kg sem Danir keyptu.Vöndum því valið á flugeldum, kaupum færri og njótum betur.

Nokkur góð ráð

 • Spyrjum söluaðilann hvort flugeldarnir uppfylli kröfur um efnainnihald
 • Kaupum skraut sem við getum notað ár frá ári, minna af einnota hlutum þýðir minna rusl og minni peningaeyðsla yfir árin
 • Drögum úr innkaupum á flugeldum og skrauti