Umhverfistofnun - Logo

Einnota pokar

 Í dag er unnið eftir aðgerðaráætlun um að draga úr notkun einnota burðarplastpoka á Íslandi. Markmiðið er að árið 2019 kaupi hver Íslendingur að hámarki 90 stk. af einnota burðarpokum á ári og að árið 2025 verði þeir komnir í aðeins 40 stk. á ári. Tölur eru á reiki um hver eiginleg notkun er í dag en hún liggur einhvers staðar á milli 100 og 200 stk. á ári á hvern Íslending.

Það er nokkuð ljóst að hvert okkar þarf ekki 100-200 poka á ári og því eigum við að draga úr einnota burðarplastpokanotkun og nota frekar það sem við höfum í höndunum s.s. handtöskur, aðra poka eða töskur. Einnig er hægt að notast við margnota innkaupapoka eða nota plastpokana okkar aftur og aftur.

Það er heldur ekki umhverfisvænt að eiga helling af pokum heima og að þeir séu ekki í notkun. Ef þú ert búin að safna þér upp miklum fjölda af margnota eða öðrum pokum og sérð ekki not fyrir þá á heimilinu, er upplagt að gefa hluta af þeim t.d. til ættingja og vina sem ekki eru byrjaðir að draga úr einnota notkun.

Algengar spurningar

Ef ég kaupi ekki plastpoka, hvað á ég þá að nota undir heimilisúrganginn? Einfalt mál - því meira sem þú flokkar heima hjá þér því færri poka þarftu, því endurvinnsluefni má setja laust í tunnurnar og í gáma á grenndar- og endurvinnslustöðvum. Flestir fá líka óhjákvæmilega alltaf einhverja poka inn á heimilið sem hægt er að nota í staðinn, t.d. brauð- og kartöflupoka, undan fatnaði eða leikföngum. Einnig má benda á að t.d. Reykjavíkurborg leyfir íbúum sínum að setja blandaðan úrgang beint (án poka) í gráu tunnuna en það er svo á ábyrgð íbúa að þrífa tunnurnar reglulega.

Ætti ég að nota maíspoka (lífbrjótanlega) poka undir ruslið mitt? Það er í góðu lagi að nota lífbrjótanlega poka undir ruslið EN við bendum á að það er ekki æskilegt að færa eina einnota notkun yfir á aðra einnota notkun.

Eru maíspokar(lífbrjótanlegir) ekki verri umhverfislega séð en plastpokar? Það fer eftir því hvernig lífbrjótanlegir pokar eru framleiddir, en best er ef þeir eru gerðir úr hliðarafurðum af annarri matvælaframleiðslu og bæði hæfir til moltugerðar og niðurbrjótanlegir í náttúrunni. Þegar lífbrjótanlegir pokar brotna niður (t.d. á urðunarstað) verða til gróðurhúsalofttegundir en metangasi er safnað á urðunarstöðum og það nýtt sem eldsneyti. Einn helsti kosturinn við þessa poka er að ef þeir sleppa út í náttúruna valda þeir ekki sama skaða á lífríkinu og plastpokarnir.

Svo eru líka til fleiri lausnir. Ruslið sem er blautt í tunnunni okkar er matur sem við erum að henda og það fyrsta sem við ættum að gera væri að draga verulega úr matarsóun, molta afganginn eða gefa smáfuglunum afganga.