Umhverfistofnun - Logo

Hvaðan kemur losun Íslands?

Hvaðan kemur losun Íslands? 

Loftslagsmálin eru víðtæk og losun er af ólíkum toga. Henni er skipt eftir uppsprettum í þrennt: ETS, LULUCF og BÁS.

Þessar uppsprettur tengjast okkar lifnaðarháttum, hvernig við framleiðum matvæli, hluti og orku og ferðumst milli staða.

Myndskeiðið sýnir hvernig losun frá ETS, LULUCF og BÁS skiptist og hver markmið okkar í loftslagsmálum eru fyrir hverja uppsprettu.


Skiptir máli hvað ég geri?

Já. Allt skiptir máli. 

Meðalkolefnisspor Íslendings er um 12 tonn af koldíoxíðsígildum á ári. Það er næstum tvöfalt meira en hjá meðalíbúa Evrópusambandsins. Sporið má rekja til samgangna og neyslu. 

Loftslagsmálin eru samvinna einstaklinga, fyrirtækja og hins opinbera. Til að leysa loftslagsvandann í sameiningu ættu allir að leggja sitt af mörkum. Margt smátt gerir eitt stórt.

Með hegðun okkar höfum við áhrif á aðra einstaklinga, fyrirtæki og hið opinbera.

 

Mun tæknin leysa vandann?

Tækni og nýsköpun eru hluti af lausninni en koma ekki í staðinn fyrir samdrátt í losun. Mikilvægast er að draga úr losun. 

Við þurfum að leita nýrra leiða til að framleiða matvæli, hluti og orku og breyta ferðavenjum.

 

Af hverju á ég að minnka losun frá bílnum á meðan stóriðjan og flugið virðast stikkfrí?

Rétt eins og einkabílinn þá eru stóriðjan og flugið ekki stikkfrí.

Losun frá stóriðju og millilandaflugi innan Evrópusambandsríkja fellur undir ETS viðskiptakerfið.

ETS kerfið takmarkar losun frá stóriðju, raforkuvera og flugfélaga. Þannig virkar kerfið sem hvatning fyrir flugfélög og stóriðju, t.d. álver, að draga úr losun á hagkvæman hátt.

Losun frá einkabílnum er á beinni ábyrgð stjórnvalda (BÁS) og þar með okkar allra. Losun frá bílaflota Íslands nemur um milljón tonnum koldíoxíðsígilda á ári. Til að ná markmiðum Íslands um samdrátt í losun þurfum við að draga úr losun frá umferð.

Loftslagsmálin eru samvinna einstaklinga, fyrirtækja og hins opinbera. Til að leysa loftslagsvandann í sameiningu ættu allir að leggja sitt af mörkum. Margt smátt gerir eitt stórt.

 

Af hverju aukum við ekki skógrækt og endurheimtum votlendi?

Góð hugmynd.

Í aðgerðaráætlun í loftslagsmálum er gert ráð fyrir aukinni bindingu og minni losun frá landi. Það er gert með skógrækt og endurheimt votlendis.

Til mikils er að vinna því losun vegna landnotkunar er umtalsverð.

Þessi leið ein og sér leysir ekki loftslagsvandann en er mikilvægur hluti af lausninni.

Losun vegna landnotkunar telst ekki til tekna í losunarbókhaldi Íslands á sama hátt og aðgerðir sem eru á beina ábyrgð stjórnvalda (BÁS). Það skiptir þó loftslagið miklu máli.

 

Hverjar eru skuldbindingar Íslands?

Ísland hefur skuldbundið sig með Evrópusambandsríkjunum til að til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% árið 2030*, miðað við losun ársins 1990. Til þess að 40% markmiðið náist eru mismiklar kröfur settar á mismunandi uppsprettur losunar.

Losun innan ETS (evrópska viðskiptakerfið með losunarheimildir) þarf að hafa dregist saman um 43% fyrir árið 2030, miðað við 2005.

Losun vegna LULUCF (landnotkun, breytt-landnotkun og skógrækt) má ekki aukast miðað við hver hún var árið 1990.

Losun innan BÁS (bein ábyrgð stjórnvalda) þarf að hafa minnkað um 29% árið 2030 miðað við árið 2005.

*Til stendur að samdráttur verði 55% í stað 40%.

 

Hvað er ETS?

ETS (EU emissions trading system) er evrópskt viðskiptakerfi með losunarheimildir. Undir ETS fellur losun frá stóriðju og millilandaflugi innan Evrópusambandsríkja. Öll ríki ESB eru þátttakendur í kerfinu auk Íslands, Liechtenstein og Noregs.

ETS kerfið takmarkar losun frá stóriðju, raforkuverum og flugi. Þannig virkar kerfið sem hvatning fyrir flugfélög og stóriðju, t.d. álver, að draga úr losun á hagkvæman hátt. Losun frá íslenska hagkerfinu sem fellur undir ETS nemur tæpum tveimur milljónum tonna koldíoxíðsígilda á ári.

Innan kerfisins fækkar losunarheimildum milli ára. Takist fyrirtækjum ekki að draga úr losun sem nemur lækkuninni þurfa þau að kaupa sér losunarheimildir á frjálsum markaði.

 

Hvað er LULUCF?

LULUCF (Land use, land-use change and forestry) heldur utan um losun og bindingu frá landnotkun, breyttri landnotkun og skógrækt.

Hér er markmiðið að losun vegna landnýtingar aukist ekki, heldur minnki með aukinni landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis. Losun frá landnýtingu á Íslandi nemur um 9 milljónum tonna á ári.

 

Hvað þýðir Losun á beinni ábyrgð Íslands?

Bein ábyrgð stjórnvalda/Íslands (BÁS) heldur utan um losun frá vegasamgöngum, landbúnaði, sjávarútvegi, efnaiðnaði og úrgangi.

Neysla, einkabílar og fiskiskip eru dæmi um losun sem við getum haft bein áhrif á og fellur því undir beina ábyrgð stjórnvalda.

Hér geta allir, bæði einstaklingar og fyrirtæki, lagt sitt af mörkum, til dæmis í orkuskiptum í samgöngum, minni sóun og breyttum neysluvenjum.

Ísland hefur skuldbundið sig til að draga úr losun sem er á beinni ábyrgð stjórnvalda um 29% milli 2005 og 2030. Losun innan BÁS nemur um 3 milljónum tonna á ári.

Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er leiðarvísir um hvernig unnt sé að ná því markmiði.