Græn skref í ríkisrekstri

 Græn skref í ríkisrekstri er hvatakerfi fyrir allar framsæknar og ábyrgar stofnanir ríkisins sem vilja vinna markvisst að umhverfismálum. Við innleiðingu Grænna skrefa er gátlistum fylgt og viðurkenningar eru síðan veittar fyrir hvert Grænt skref sem tekið er, en skrefin eru samtals fimm. Upphaflega var verkefnið þáttur í því að innleiða og framfylgja stefnu ríkisins um vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur til ársins 2016. 

Í dag samræmist verkefnið aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að aukinni kolefnisbindingu þannig að Ísland geti staðið við markmið Parísarsamningsins til 2030 og markmið ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutleysi árið 2040.

Markmið Grænna skrefa er að:

  • draga úr umhverfisáhrifum vegna reksturs ríkisstofnana
  • auka umhverfisvitund ríkisstarfsmanna. 

Á vef Grænna skrefa má finna allar upplýsingar um verkefnið s.s. skráningarform,  leiðbeiningar og gátlista, þátttakendur o.fl. Einnig er hægt að fylgjast með verkefninu á samfélagsmiðlum @graennrikisrekstur (Vistvæn innkaup og grænn ríkisrekstur).

 

Umhverfis- og loftslagsbókhald

Hluti af Grænu skrefunum er að halda umhverfis- og loftslagsbókhald (grænt bókhald) sem notað er til að taka saman tölulegar upplýsingar um ýmis konar innkaup og auðlindanotkun sem hefur umhverfisáhrif m.a. eldsneyti og úrgangur. Meginmarkmiðið er að fá yfirsýn yfir magntölur í rekstri og greina tækifæri til að draga úr umhverfisáhrifum. Á vefsíðu Grænna skrefa má sjá leiðbeiningar og niðurstöður úr bókhaldi þeirra stofnana sem taka þátt í verkefninu (sjá hér).
Umhverfisstofnun hefur umsjón með verkefninu fyrir hönd umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og aðstoðar og leiðbeinir ríkisstofnunum við innleiðingu.