Þvotta- og hreinsivörur

Til eru margvíslegar þvotta- og hreinsivörur eins og t.d fyrir uppþvotta- og þvottavélar auk ýmissa sértækra hreinsiefna. Mörg þessara efna geta verið ertandi og jafnvel ætandi og haft skaðleg áhrif á heilsu. Því skal ætíð geyma hreinsiefni þar sem börn ná ekki til. Hreingerning með hreinsiefnum skilur alltaf eftir efnaleifar í umhverfinu. Smábörn eru útsettari fyrir þessum efnaleifum en fullorðnir því þau skríða um á gólfinu. Því minna sem notað er af hreinsiefnum því minna fá börnin í sig af þessum efnum. 

Sum þvottaefni innihalda efni sem safnast fyrir í náttúrunni sem er bagalegt því flest hreinsiefni enda í niðurföllunum og þar með úti í umhverfinu. Gólfsápur innihalda mismunandi bón- og vaxefni og aðrar vörur efni til að fjarlægja bón og vax. Þessar vörur eru notaðar til að vernda gólf fyrir sliti og gera þrifin á þeim auðveldari en innihaldsefni þeirra geta verið skaðleg umhverfinu. Dæmi um slík efni í þvotta- og hreinsivörum eru PFOA, PFOS, xýlen og síloxan og musk-xýlen ilmefni. 

Þvottaefni fyrir fatnað o.þ.h. eru gerð úr mörgum mismunandi efnum með ólíka eiginleika. Auk efnanna, sem eiga að losa óhreinindin úr þvottinum, eru sett ónauðsynleg efni í mörg þvottaefni  t.d. ilmefni. Ilmefni í þvottaefnum geta valdið ofnæmi, sama á við um mýkingarefni. Athugið að mýkingarefnin eru ekki nauðsynleg til að hreinsa þvott.

Notið minna!

Góð leið til að minnka áhrif hreinsiefna á heimilum er einfaldlega að nota minni skammta. Hægt er að prófa sig áfram með því að minnka skammtinn hægt og rólega og halda sig við þann minnsta skammt sem gefur góðan árangur. Á Íslandi er vatnið steinefnasnautt („mjúkt“) en minna þvottaefni þarf í slíkt vatn heldur en í steinefnaríkt („hart“) vatn. Reynslan hefur sýnt að fólki hættir til að  nota allt of stóra þvottaefnaskammta. Með minni skammtastærðum fer minna af efnum út í umhverfið og á sama tíma sparast peningar sem er gott fyrir heimilisbókhaldið.

 

Veljið Svans- eða umhverfismerktar vörur!

Við framleiðslu á Svansmerktum vörum er tekið tillit til bæði heilsu og umhverfis. Vörurnar innihalda eins lítið af hættulegum efnum og unnt er að komast af með og við framleiðslu þeirra er losun á hættulegum efnum og gróðurhúsaloftegundum í lágmarki.

Geymið þar sem börn ná ekki til!

Hættulegustu efnin eiga að vera merkt með hættumerki á appelsínurauðum grunni. Allar vörur merktar á þann hátt á að geyma þar sem börn ná ekki til. Jafnvel þótt umbúðirnar séu með loki sem börn eiga ekki að getað opnað, þá er ekki alveg hægt að treysta á að þeim takist það ekki.

Notið trefjaklúta!

Á síðustu árum hafa komið fram nýjar vörur sem draga úr þörfinni á hreinsiefnum. Klútar, moppur og aðrar vörur úr örþráðum nýta yfirborðsspennu til að draga í sig ryk og óhreinindi og eru algjörlega án hreinsiefna. Til eru margar tegundir af klútum fyrir mismunandi tegundir af óhreinindum. Engin hættuleg efni eru í þeim, en hins vegar eru notuð efni við framleiðsluna, t.d. litarefni, sem geta verið skaðleg heilsu og umhverfi. Stundum innihalda svona klútar silfur en það hefur bakteríudrepandi áhrif. Silfur getur verið skaðlegt fyrir umhverfið og getur valdið því að bakteríur verða ónæmar fyrir sýklalyfjum. Það er gott ráð að forðast alveg að kaupa klúta sem innihalda silfur sem ætti að vera auðvelt vegna þess að þeir eru sérstaklega merktir.

Tengt efni