Snyrtivörur

  SnyrtivörurSnyrtivörur er fjölbreyttur vöruflokkur og gilda ákveðnar reglur um markaðssetningu þeirra, sem eiga að tryggja gæði og lágmarka neikvæð áhrif sem geta fylgt notkun þeirra. Umhverfisstofnun fer með framkvæmd snyrtivörureglugerðar hér á landi en heilbrigðisnefndir sveitarfélaga gefa út starfsleyfi fyrir snyrtivöruframleiðslu.

  reglugerð nr. 577/2013 um snyrtivörur tók gildi 11. júlí 2013 en með henni var reglugerð Evrópusambandsins nr. 1223/2009 innleidd hér á landi. Með henni er m.a. komið á samræmdu tilkynningarferli og gagnagrunni yfir allar snyrtivörur á markaði innan Evrópska efnahagssvæðisins. Reglugerðin gerir auknar kröfur til framleiðenda og innflytjenda um að sýna fram á öryggi snyrtivara og tilkynna um óæskileg áhrif af völdum þeirra. Nafngreindur ábyrgðaraðili á Evrópska efnahagssvæðinu skal uppfylla skyldur framleiðanda eða innflytjanda.

  Með breytingunum er ætlunin að stuðla að öruggari snyrtivörum á markaði, auka rekjanleika þeirra og einfalda stjórnsýslu.

  Reglugerðin innleiðir reglugerð (EB) nr. 1223/2009. Allar breytingar á reglugerð 1223/2009 eru  innleiddar hérlendis. Kröfur til innihaldsefna eru birtar í III til VI viðauka. 

  • I viðauki: Öryggisskýrsla um snyrtivörur
   • Um viðmiðunarreglur I viðauka skv. ESB reglugerð nr. 674/2013
  • II viðauki: Efni sem eru bönnuð í snyrtivörum
  • III viðauki: Efni sem leyfilegt er að nota í snyrtivörum með skilyrðum
  • IV viðauki: Litarefni sem leyfilegt er að nota í snyrtivörum 
  • V viðauki : Rotvarnarefni sem leyfilegt er að nota í snyrtivörum
  • VI viðauki: Efni til síunar útfjólublárra geisla sem leyfilegt er að nota í snyrtivörum

  Skilgreining á snyrtivörum

  • Snyrtivörur eru efni eða efnablöndur sem ætlaðar eru til notkunar á mannslíkamann s.s. hörund, hár, neglur, varir, ytri kynfæri, tennur eða slímhimnu í munni. Snyrtivörum er einkum ætlað að hreinsa, breyta útliti, veita ilm, bæta líkamsþef eða vernda og halda líkamshlutum í góðu ástandi. Snyrtivörur mega ekki, við eðlilega notkun, vera skaðlegar heilsu manna.
  • Eftirtalin efni og vörur teljast ekki vera snyrtivörur: Efni og vörur til notkunar í læknisfræðilegum tilgangi, ýmis efni sem ætluð eru til notkunar til þess að meðhöndla sjúkdóma, verki eða veikindi, efni sem sprautað er undir húð, sótthreinsivörur, lyf, húðflúrunarlitir, lúsameðul og ýmislegt fleira.

   Leiðbeinandi listi yfir flokka snyrtivara:

  1. Krem, fleyti, húðmjólk, hlaup og olíur fyrir húð (hendur, andlit, fætur o.s.frv.).
  2. Andlitsmaskar.
  3. Lituð dagkrem (fljótandi, pasti, púður).
  4. Förðunarpúður, baðpúður, hreinlætispúður o.s.frv.
  5. Handsápa, ilmsápa o.s.frv.
  6. Ilmvatn, snyrtivatn og kölnarvatn.
  7. Bað- og steypibaðsvörur (sölt, froða, olía, hlaup o.s.frv.).
  8. Háreyðingarvörur.
  9. Lyktareyðir, svitalyktareyðir.
  10. Hársnyrtivörur; hárlitunar- og aflitunarvörur, hárliðunar- og afliðunarvörur, festir, hárlagningarvörur, hárhreinsivörur (vökvi, hárhreinsiduft, hárþvottalögur), hárnæringarvörur (vökvi, krem, olía), hárgreiðsluvörur (vökvi, hárlakk, hárgljái).
  11. Rakstursvörur (sápa, froða, vökvi o.s.frv.).
  12. Andlits- og augnförðunarvörur og viðeigandi hreinsiefni.
  13. Varaáburður.
  14. Vörur til tann- og munnhirðu.
  15. Naglasnyrtivörur og naglalakk.
  16. Vörur fyrir viðkvæm þrif útvortis.
  17. Sólbaðsvörur.
  18. Brúnkukrem án sólar.
  19. Efni til að lýsa húð.
  20. Efni sem vinna gegn hrukkum.

  Tengt efni

  Framleiðsla á snyrtivörum

  Markaðssetning snyrtivara

  • Við markaðssetningu snyrtivara þarf að ganga úr skugga um að þær uppfylli kröfur um merkingar í reglugerð (EB) nr. 1223/2009 og innihaldi aðeins efni sem leyfilegt er að nota.
  • Við fyrstu markaðssetningu snyrtivöru innan Evrópska efnahagssvæðisins skal tilkynna hana í framangreindri vefgátt ESB.

  Ábyrgðaraðili

  Til þess að snyrtivara sé löglega markaðssett innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) skal tilnefndur ábyrgðaraðili á svæðinu en hann ábyrgist að snyrtivaran uppfylli skilyrði reglugerðarinnar. Ábyrgðaraðili getur verið:

  • Framleiðandi snyrtivöru innan EES. Hann getur veitt öðrum aðila innan EES skriflegt umboð til þess. 
  • Innflytjandi vöru frá ríkjum utan EES. Hann getur veitt öðrum aðila innan EES skriflegt umboð til þess. 
  • Dreifingaraðili ef hann markaðssetur snyrtivöru undir sínu nafni eða vörumerki eða breytir vöru sem þegar hefur verið sett á markað. 

  Eftirfarandi gögn ber ábyrgðaraðila snyrtivöru að hafa:

  • Vöruupplýsingaskjal (e. product information file) sem skal innihalda:  <>
  • Lýsingu á vöru. 
  • Lýsingu á framleiðsluaðferð og yfirlýsingu um samræmi við góða framleiðsluhætti. 
  • Sönnun á fullyrtum áhrifum vöru. Leiðbeiningar eru til á ensku um skilyrði fyrir réttlætingu fullyrðinga um vikni snyrtivara.
  • Öryggisskýrslu um vöru sem staðfestir að öryggismat hafi farið fram. Leiðbeiningar eru til á ensku um samantekt öryggisskýrslu.
 • Öryggismat í samræmi við I. viðauka reglugerðar (EB) nr. 1223/2009
 • Ábyrgðaraðili skal sjá til þess að lögbær yfirvöld aðildarríkisins, þar sem vöruupplýsingaskjalið er varðveitt, hafi greiðan aðgang að því.

  Umhverfisstofnun getur óskað eftir sannprófun á öryggi snyrtivöru af lögbæru yfirvaldi aðildarríkisins þar sem vörupplýsingaskjalið er varðveitt og hvort þær upplýsingar sem þar eru settar fram færi sönnur á öryggi vörunnar.

  • Merkingar snyrtivara skulu vera á íslensku, ensku eða Norðurlandamáli öðru en finnsku. Á merkimiða skal koma fram: 
   • Nafn og heimilisfang ábyrgðaraðila. 
   • Upprunaland ef um innflutta snyrtivöru er að ræða frá ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins (EES).
   • Magn við pökkun (þyngd eða rúmmál).
   • Geymsluþol vöru: Dagsetning fyrir lágmarksgeymsluþol á eftir tákninu hér til hliðar eða á eftir orðunum „Best fyrir“ (tilgreina skal mánuð og ár eða dag, mánuð og ár).
   • Upplýsingar um dagsetningu fyrir lágmarksgeymsluþol eru ekki skyldubundnar á vöru ef það er meira en 30 mánuðir. Ef opnun umbúða hefur hins vegar áhrif á geymsluþolið skal táknið hér til hliðar vera á umbúðum (fjölda mánaða eða ára skal setja inn í eða við táknið).
   • Notkunarskilyrði og varnarorð samkvæmt III. viðauka reglugerðar EB á íslensku (sjá nánar flipa um innihaldsefni á þessari síðu). Dæmi um þetta eru varúðarráðstafanir sem gera skal við notkun og viðvörunarmerking vegna efna sem geta verið ofnæmisvaldandi. Ef lesa skal leiðbeiningar á fylgiseðli skal setja táknið hér til hliðar á umbúðir.
   • Númer framleiðslulotu eða tilvísun sem gerir kleift að sanngreina vöruna.
   • Hlutverk snyrtivöru ef er ekki augljóst á söluumbúðum hennar.
   • Skrá yfir innihaldsefni, í lækkandi röð eftir hlutfalli í vöru. Ilmefni skulu nefnd ilmefni eða lyktarefni (parfume/perfume/aroma). Nota skal heiti efna samkvæmt INCI nafnakerfinu, sé það til, annars samkvæmt öðru viðurkenndu nafnakerfi. Öll innihaldsefni á formi nanóefna skulu tilgreind á umbúðum undir innihaldsefni.
  • Ekki skal nota orðalag, heiti, ímyndir eða önnur tákn sem gefa til kynna eiginleika sem snyrtivörur hafa ekki.
  • Fullyrðingar um að vara hafi ekki verið prófuð á dýrum er aðeins heimilt að birta ef ljóst er að hvorki framleiðandi né birgjar hafi látið framkvæma tilraunir á dýrum hvort sem er á fullunni vöru, frumgerð hennar eða neinum af innihaldsefnum hennar.

  Upplýsingar sem eiga að koma fram á íláti og umbúðum snyrtivara eru taldar upp í 19. grein reglugerðar (ESB) nr. 1223/2009.

  • Bikar- og tilraunaglösInnihaldsefni skulu koma fram á umbúðum í röð eftir lækkandi hlutfalli í vörunni.
  • Nota skal heiti þeirra samkvæmt INCI nafnakerfinu, sé það til, annars samkvæmt öðru viðurkenndu nafnakerfi.
  • Ilmefni má merkja sem "ilmefni" eða "lyktarefni" (parfum/perfume/aroma)
  • Við markaðssetningu snyrtivara getur þurft að ganga úr skugga um að þau innihaldi aðeins efni sem leyfilegt er að nota.
  • Á heimasíðu framkvæmdastjórnar ESB er hægt að finna út hvort einstök efni séu viðurkennd, bönnuð eða hvort ákveðnar reglur eða takmarkanir gildi um þau. Nafn efnis er skrifað í leitarglugga neðarlega á heimasíðunni og fer þá fram leit í lista ESB yfir innihaldsefni í snyrtivörum. Koma fram upplýsingar um efnið með vísun í framangreinda viðauka reglugerðar (EB) nr. 1223/2009 (athygli er vakin á því að listinn yfir viðurkennd innihaldsefni er ekki tæmandi).

  UV-síur

  Útfjólubláir geislar sólar (UV geislar) eru ósýnilegir mönnum. Ósonlagið í lofthjúp jarðar gleypir stóran hluta þessara geisla en hluti útfjólublárrar geislunar nær þó til jarðar. Útfjólubláum geislum er gjarnan skipt í A og B geisla eftir bylgjulengd (hér eftir kallaðir UVA og UVB, þ.e. Ultraviolet A og B). Útfjólubláir geislar hafa jákvæð áhrif á menn þar sem þeir ýta undir myndun D-vítamíns í líkamanum en neikvæð áhrif þeirra eru þó öllu fleiri. Nokkuð langt er síðan menn áttuðu sig á samspili UVB geisla og sólbruna, aukinnar hrukkumyndunar og jafnvel illkynja húðkrabbameins. Á síðari árum hafa rannsóknir í auknum mæli beinst að áhrifum UVA geisla. Þó að UVB-geislar teljist aðalorsakavaldur illkynja húðkrabbameins er ekki loku fyrir það skotið að UVA geislar eigi einnig þátt í myndun þess. Sannað þykir að UVA-geislar flýti öldrun húðarinnar en rannsóknir benda einnig til þess að í óhóflegu magni veiki bæði UVB og UVA geislar ónæmiskerfi líkamans.

  Í sólarvarnarvörum eru efni sem hindra sólbruna af völdum útfjólublárra geisla, svokallaðar UV-síur. Tvenns konar UV-síur eru jafnan notaðar saman sem byggja á mismunandi gleypni UV-geislunar. Þetta eru annars vegar ólífræn efni á borð við títaníumoxíð og hins vegar ýmis önnur fituleysanleg efni sem þykja sum hver vafasöm bæði vegna þess hve illa þau brotna niður í umhverfinu og tilhneigingar til að safnast upp í líkamanum. Eitt af þeim er efnið 4-MBC (4-methyl benzylidene camphor) og er mælt með því að börn noti ekki sólarvörn með því efni. Aðeins þær UV-síur sem taldar eru upp í VI. viðauka reglugerðar (EB) nr. 1223/2009 mega vera í sólarvörn.

  Sólvarnarvörur þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði til að teljast sem fullnægjandi sólarvörn. Þær þurfa að veita vörn gegn UV geislum af mismunandi bylgjulengd (UV-A og UV-B geislar). Merkingar skulu miða að því að auðvelda val á viðeigandi sólarvörn og ekki má nota fullyrðingar um að vara veiti fullkomna vörn gegn geislum sólar. Fullyrðingar um verkun sólvarna og annarra snyrtivara skulu fylgja ákveðnum viðmiðunum m.a. um, trúverðugleika, heiðarleika og skal vera sannprófuð með rannsóknum. Reglugerð um þær viðmiðanir tók gildi hér á landi árið 2014.

  Hvernig má varast neikvæð áhrif sólar

  Við sólböð eða aðra útiveru í sól er nauðsynlegt að nota sólvarnarvörur. Mikilvægt er að velja vörn með háum SPF stuðli (Sun Protection Factor) sem ver húðina gegn bæði UVB og UVA geislum. Eitthvað er um villandi eða jafnvel rangar staðhæfingar um gagnsemi sólvarnarvara. Þær hafa til dæmis verið markaðssettar sem „sólblokkarar” sem sagðir eru fullkomin vörn gegn útfjólublárri geislun. Slík vörn er ekki til og því ekkert mark takandi á slíkum staðhæfingum. Þá hafa merkingar sem vísa til varnarmáttar sólvarnarvara gegn UVA geislum verið afar mismunandi og jafnvel misvísandi. Úr þessu hefur dregið vegna endurbóta, einfaldana og samræmingar á merkingum sólvarnarvara eftir átak á vegum framleiðanda þessara vara í Evrópu.

  Til viðbótar: Meira um sólarvörn og útfjólubláa geislun í flipa um ítarefni

  Litarefni

  Mörg algeng litarefni eru skaðleg heilsu og því aðeins hægt að leyfa sum litarefni í snyrtivörum. Litgjafa sem nota má í snyrtivörur eru talin upp í IV. viðauka reglugerðar (EB) nr. 1223/2009.

  Hárlitunarefni

  Mörg algeng hárlitunarefni hafa ekki staðist áhættumat. Þau hafa ýmist verið bönnuð eða sett fram skilyrði um notkun þeirra, ásamt varnarorðum, vegna hættu á ofnæmi, öðrum neikvæðum áhrifum á heilsu eða vegna vafa á því að þau séu örugg heilsu manna. Dæmi um slíkt efni er hýdrokínón (hydroquinone) sem bannað er í hárlitum á almennum markaði og má eingöngu nota í 0,02% styrk (eftir blöndum) af fagfólki. Í III. viðauka reglugerðar (EB) nr. 1223/2009 er listi yfir efni sem skilyrði gilda um (sjá í dálki i um notkunarskilyrði og varnarorð). Ef ákveðin efni eru í hárlitum er þannig skylt að setja notkunarskilyrði og varnarorð á umbúðir eða á fylgiseðil. Hér er listi yfir helstu þessara efna sem notuð eru í hárliti. Í dálkinum lengst til hægri má sjá notkunarskilyrði og varnarorð sem gilda um hvert efni fyrir sig. Einnig er skylt að setja ákveðna viðvörunarmerkingu á umbúðir, eða á fylgiseðil, ef efni geta valdið ofnæmi.

  Til viðbótar:

  Rotvarnarefni

  Rotvarnarefni í snyrtivörum eru mikilvæg til að hindra bakteríuvöxt og tryggja upprunaleg gæði snyrtivara eftir að umbúðir eru opnaðar í fyrsta sinn. Mörg leyfileg rotvarnarefni eru umdeild eins og paraben sem sýnt hefur verið frá á að geta raskað homónastarfsemi. Önnur efni geta valdið ofnæmi eins methylisothiazolinone og önnur eru skaðleg umhverfinu eins og triclosan. Leyfilegur hámarksstyrkur parabena í snyrtivörum er háður takmörkunum og var lækkaður árið 2014 eftir skoðun vísindanefndar Evrópusambandsins um neytendavörur sbr. breytingu á viðauka V með reglugerð (EB) um snyrtivörur nr. 1223/2009. Þetta á við um eftirtaldar fjórar gerðir parabena: ethylparaben, butylparaben, methylparaben og propylparaben. Fimm aðrar gerðir parabena voru bannaðar í snyrtivörum 30. október 2014 og frá og með 30. júlí 2015 má ekki selja snyrtivörur sem framleiddar voru fyrir þann tíma og innihalda eitt eða fleiri af þeim parabenum. Um er að ræða isopropylparaben, isobutylparaben, phenylparaben, benzylparaben og pentylparaben.

  Ef neytandinn vill forðast snyrtivörur sem innihalda paraben þá eru vörur án parabena til á markaði. Snyrtivörur með umhverfismerkinu Svaninum innihalda ekki paraben og hægt er að nálgast þær m.a. í ýmsum apótekum og heilsubúðum.

  Tannhvíttun (tannbleiking)

  Tannbleikingarefni sem notuð eru á snyrtistofum eða af almenningi má að hámarki innihalda 0,1% vetnisperoxíð samkvæmt viðauka III með reglugerð (EB) um snyrtivörur nr. 1223/2009. Tannbleikingarefni sem inniheldur allt að 6% vetnisperoxíð mega tannlæknar eingöngu nota svo að tryggt sé að notkun þess fari einungis fram hjá sérfræðingi.

  Nanóefni og nanótækni

  Á undanförnum árum hefur ný tegund efna, nanóefni, verið að ryðja sér rúms. Um er að ræða efni, jafnvel þau sömu hafa verið notuð í ýmsar vörur um árabil, sem framleidd eru í örstærð (mæld í nanómetrum eða einum milljónasta úr millimetra). Efnin eru á föstu formi en samt ósýnileg. Með því að framleiða efni í svo lítilli stærð öðlast þau ákveðna eiginleika, vegna hins virka yfirborðs, sem gefur möguleika á ýmsum sérhæfðum lausnum og hönnun mun fíngerðari hluta en áður.

  Nanótækni er ört vaxandi iðnaður og spannar orðið vítt svið s.s. yfirborðsmeðhöndlun, efnaiðnað, byggingaiðnað, líftækni, orkumiðlun og tölvutækni. Dæmi um vel þekkta notkun í dag er í rafeindatækni, skynjara (nemar), hvarfakútar í bílum, íþróttavörur og UV-síur í sólarvörnum.

  Áhrif á heilsu manna og umhverfi

  Afskaplega lítið er vitað um áhrif nanóefna á heilsu manna og umhverfi. Þó er vitað að svo litlar efnisagnir hafa aðra eiginleika en hefðbundnar efnisagnir ekki síst vegna þess að þær geta borist í gegnum lög og himnur sem föst efni í hefðbundinni stærð komast ekki í gegnum. Það getur átt við um húð/húðfrumur manna. Innöndun nanóefna getur sér í lagi reynst varasöm því örsmáar efnisagnirnar geta borist ofan í lungun.

  Neytendur eiga ekki alltaf gott með að sjá hvort vara innihaldi nanóefni. Oft er gerð grein fyrir þeim með einhverjum hætti á umbúðum með forskeytinu nanó- framan við hin ýmsu orð.

  Neytendur eru hvattir til að vega og meta við kaup á snyrtivörum sem innihalda nanóefni hvort þau séu rétti valkosturinn vegna þess hve áhrif þeirra hafa lítið verið rannsökuð. Sjaldnast er t.d. þörf fyrir vörur með sótthreinsandi virkni sem byggja á nanóefnum á borð við silfur. Eins er rétt að vara við notkun nanóefna í úðabrúsum og pumpum ef hætta er á að innihaldið berist inn í öndunarveg.

  Tilkynna skal um nanóefni

  Tilkynna skal um markaðssetningu snyrtivöru sem inniheldur nanóefni við skráningu snyrtivara í snyrtivörurvefgátt ESB (CPNP vefgáttina) sex mánuðum áður en varan fer á markað. Þetta þarf þó ekki að gera ef notkun efnanna er viðurkennd samkvæmt viðauka III með reglugerð (EB) um snyrtivörur nr. 1223/2009 eða sem viðurkennd hafa verið sem litarefni, rotvarnarefni eða efni til síunar útfjólublárra geisla samkvæmt viðauka IV, V og VI með reglugerðinni.

  Í tilkynningu skal taka fram ýmis gögn um auðkenni nanóefnis (IUPAC heiti), stærð agna og eiginleikar, magn efnis í snyrtivörunni, eiturefnafræði, öryggi og notkun og váhrif þess.

  Viðvörunarmerkingar og fyrirmæli

  Sérstakar viðvaranir eiga að vera á umbúðum snyrtivara sem innihalda tiltekin efni sem ástæða er til að vara við. Hættan er þá fólgin í því sem getur komið fyrir ef ekki er farið eftir notkunarleiðbeiningum. Slíkum viðvörunum fylgja oftast fyrirmæli um hvernig nota eigi vöru á öruggan hátt. Þessar merkingar eiga að vera á íslensku nema ef aðeins er um að ræða upptalningu innihaldsefna. Efnin sem þetta á við um eru talin upp í III. viðauka reglugerðar (EB) nr. 1223/2009 (talin upp efni sem leyfð eru með takmörkunum). Í B-hluta eru efni sem leyfð eru tímabundið. Nokkur dæmi um viðvaranir: * Viðvörun – flúor í tannkremi (0,1 – 0,15% flúoríð):
  Börn 6 ára og yngri: Notið þann skammt af tannkremi sem samsvarar nöglinni á litlafingri barnsins til að lágmarka gleypingu.
  Önnur inntaka flúors skal vera í samráði við tannlækni eða lækni.
  * Viðvörun – vetnisperoxíð í m.a. snyrtivörum fyrir húð og neglur:
  Inniheldur vetnisperoxíð. Varist snertingu við augu. Berist efnið í augu, skolið þá strax vandlega.
  *Viðvörun – formaldehýð í naglaherði:
  Verjið naglabönd með feiti eða olíu.

  Snyrtivöruvefgátt ESB - CPNP 

  Áður en snyrtivara er markaðssett innan Evrópska efnahagssvæðsins skal ábyrgðaraðili tilkynna/skrá vöruna með rafrænum hætti í snyrtivöruvefgátt ESB, svokallaða CPNP vefgátt (skammstöfun á Cosmetic Product Notification Portal). Þetta á við um framleiðendur snyrtivara, aðila sem markaðssetur snyrtivöru undir sínu nafni eða vörumerki eða breytir vöru sem þegar hefur verið sett á markað og aðila sem flytur snyrtivöru í fyrsta sinn inn á EES svæðið.

  Almennar upplýsingar

  • Flokkur og heiti vöru. 
  • Nafn og heimilisfang ábyrgðarmanns og samskiptaupplýsingar. 
  • Upprunaland snyrtivöru. 
  • Ríki innan EES þar sem markaðssetja á snyrtivöru. 
  • Ljósmynd af vöru/umbúðum. 
  • Mynd af miða á umbúðum og/eða sýna texta á umbúðum. Allar skyldubundnar merkingar eiga að sjást á miðanum. 

  Efnaupplýsingar

  • Rammasamsetning vöru, nákvæmt efnainnihald og styrk efna eða efnainnihald og styrkleikabil efna (um er að ræða þrjá kosti sem valið er á milli) 
  • CMR efni (ef eru í vöru) og auðkenni þeirra. 
  • Nanóefni (ef eru í vöru), auðkenni (IUPAC heiti), stærð agna, eiginleikar, magn, eiturefnafræði, öryggi og váhrif nanóefnis. 

  Nánari upplýsingar um þau gögn sem ber að skrá má finna í 13. gr. reglugerðar (EB) nr. 1223/2009

  Leiðbeiningar eru til á íslensku og ensku um það hvernig standa eigi að tilkynningu. 

  Kynningarfundur um tilkynningar var haldinn þann 13. maí 2013

  RAPEX

  RAPEX er tilkynningarkerfi á vegum ESB  og er skammstöfun á "The Rapid Alert System for Non-Food Products". Í gegnum það berast reglulega tilkynningar um ýmsar vörur, þar á meðal snyrtivörur á markaði, sem geta verið skaðlegar heilsu manna eða eru ólöglegar. 

  Umhverfisstofnun hefur frá september 2013 tekið reglulega saman lista yfir snyrtivörur í RAPEX með áherslu á þær sem upprunnar eru í nágrannalöndum okkar í Evrópu, í Bandaríkjunum, Kanada eða Kína, eða hafa verið bannaðar í þeim löndum. Stofnunin birtir listana á heimasíðunni og sendir á helstu innflytjendur snyrtivara, og stuðlar þannig að því að ekki séu heilsuspillandi og jafnvel ólöglegar snyrtivörur á markaði hér á landi.

  Ef vörur á listunum reynast vera á markaði hér á landi óskar stofnunin eftir því að upplýsingar þess efnis verði sendar gegnum vefinn eða með tölvupósti á ust@ust.is.

   

  Listar yfir snyrtivörur sem geta verið skaðlegar

  Mynd sem fylgir - Rauði listinn

  Rauði listinn

  Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
  Meira

  Vinsælar síður

  An exception occurred: Invalid column name 'orderby'.