Útfösun HFC-efna

  Meðal þeirra aðgerða sem horft er til í dag til að ná árangri í loftslagsmálum er skipulögð útfösun vetnisflúorkolefna (HFC), en slíkum aðgerðum hefur nú verið hrundið af stað á fleiri en einum vettvangi sem snertir Ísland. Evrópusambandið hefur, í reglugerð (ESB) nr. 517/2014, sett á fót kvótakerfi til að draga úr neyslu HFC-efna og jafnframt hefur verið gerð breyting á Montrealbókuninni sem skyldar aðila að henni til að draga úr neyslu þeirra, en Montrealbókunin hefur þá sérstöðu meðal alþjóðasamninga á vegum Sameinuðu þjóðanna að öll ríki heims eru aðilar að henni. Hér að neðan er örlítið nánari umfjöllun um þessar aðgerðir.

  Reglugerð (ESB) nr. 517/2014

  Þann 16. apríl 2014 tók gildi ný reglugerð um flúoraðar gróðurhúsalofttegundir (F-gös) í ríkjum innan ESB. Þessi reglugerð er nú í innleiðingarferli hér á landi. Þegar hún hefur verið innlimuð í EES-samninginn verður sett íslensk reglugerð til innleiðingar á ákvæðum hennar.

  Kvóti á markaðssetningu

  Reglugerðin sem hér um ræðir hefur að geyma mörg ákvæði sambærileg við eldri reglugerð sem þegar er í gildi hér á landi. Nokkur áhrifamikil ákvæði eru þó ný í þessari reglugerð. Meðal þeirra eru ákvæði um kvóta á markaðssetningu HFC-efna í Evrópuríkjum. Þessi ákvæði reglugerðarinnar snúa að sameiginlegum niðurskurði á neyslu HFC-efna, en hlutföll skerðingar á markaðssetningu innan ESB má sjá í töflu 1. Ljóst er að leiða má líkur að því að verðlag muni hækka eftir því sem heildarframboð miðlanna á markaði skerðist. Ekki er heldur fyrirséð hvort eða með hvaða hætti innflutningur íslenskra fyrirtækja á EES svæðið hingað til verður metinn til úthlutunar kvóta innan evrópska kerfisins þar sem kvótakerfi ESB var sett upp án aðkomu EFTA-ríkjanna og kvótarnir þegar farnir að telja í því kerfi.

  Tafla 1: Kvótamörk á markaðssetningu HFC í ríkjum Evrópusambandsins skv. V. viðauka reglugerðar (ESB) nr. 517/2014.
  Ár Leyfð markaðssetning sem hlutfall af grunnlínu*
  2015 100 %
  2016-17 93 %
  2018-20 63 %
  2021-23 45 %
  2024-26 31 %
  2027-29 24 %
  2030- 21 %
  * Grunnlína markaðssetningar er fundin sem meðaltal framleiðslu/innflutnings HFC-efna á árunum 2009-12, reiknað í koldíoxíðjafngildum.

  Takmarkanir á markaðssetningu

  Í III. viðauka við reglugerðina koma fram takmarkanir á markaðssetningu búnaðar sem inniheldur flúoraðar gróðurhúsalofttegundir. Nokkur ný bönn sem koma þar fram má sjá í töflu 2 hér að neðan.

  Tafla 2: Dæmi um takmarkanir á markaðssetningu sem finna má í III. viðauka við reglugerð (ESB) nr. 517/2014.
  Vörur og búnaður Bann tekur gildi
  Kæliskápar og frystar til heimilisnota sem innihalda HFC-efni með GWP ≥ 150 1. janúar 2015
  Kælar og frystar til atvinnunota (loftþétt kerfi) sem innihalda HFC-efni með GWP ≥ 2500 1. janúar 2020
  sem innihalda HFC-efni með GWP ≥ 150 1. janúar 2022
  Fastur kælibúnaður, sem inniheldur eða virkar ekki án HFC-efna með GWP ≥ 2500, að undanskildum búnaði sem ætlaður er til kælingar vara niður fyrir —50 °C. 1. janúar 2020
  Miðlæg kælikerfi til atvinnunota með kæligetu ≥ 40  kW, sem innihalda eða virka ekki án flúoraðra gróðurhúsalofttegunda með GWP ≥ 150, nema í aðalrás tveggja þrepa kælikerfis þar sem flúoraðar gróðurhúsalofttegundir með GWP < 1500 verða leyfilegar. 1. janúar 2022

  Takmarkanir á notkun

  Auk kvótasetningar og takmarkana á markaðssetningu eru ákvæði um takmarkanir á notkun. Þannig mun frá 1. janúar 2020 verða bannað að nota nýja miðla sem hafa GWP ≥ 2500 til að þjónusta kerfi sem telja 40 tonn koldíoxíðjafngildis eða meira. Í þennan hóp falla meðal annars þeir tveir kælimiðlar úr hópi F-gasa sem eru í mestum innflutningi hingað til lands: R404 (GWP = 3922) og R507 (GWP = 3985). Þetta þýðir að bannað verður að þjónusta kerfi sem innihalda meira en ca. 10 kg af þessum miðlum með nýjum efnum frá áramótum 2019-20. Þjónusta kerfanna með endurheimtum/endurunnum efnum verður leyfð til 2030.

  Breyting á Montrealbókuninni

  Þann 15. október 2016 var samþykkt breyting á Montrealbókuninni um verndun ósonlagsins sem kölluð er Kigali-breytingin. Hún hefur að geyma ákvæði um útfösun HFC-efna. Þannig er Montrealbókunin, sem áður sneri eingöngu að útfösun efna sem höfðu ósoneyðandi áhrif, nú orðin lykilþáttur á heimsvísu í útfösun gróðurhúsalofttegunda úr hópi F-gasa. Grunnlína útfösunarinnar sem kveðið er á um í Montrealbókuninni er önnur en Evrópugerðarinnar sem rætt var um hér að ofan og tímasetningar og hlutföll áætlaðrar útfösunar að sama skapi (tafla 3).

  Tafla 3: Kvótamörk á neyslu (innflutning í tilfelli Íslands) HFC í þróuðum ríkjum skv. Montrealbókuninni.
  Ár Leyfður innflutningur sem hlutfall af grunnlínu**
  2019-23 90 %
  2024-28 60 %
  2029-33 30 %
  2034-35 20 %
  2036- 15 %
  ** Grunnlína innflutnings er fundin sem meðaltal innflutnings HFC-efna á árunum 2011-13, reiknað í koldíoxíðjafngildum, að viðbættum 15 % af reiknuðu koldíoxíðjafngildi grunnlínu, undir Montrealbókuninni, vegna innflutnings HCFC-efna.

  Grunnlínan, sem samkomulag náðist um við breytinguna á bókuninni, byggir á meðaltali ársinnflutnings HFC í viðkomandi aðildarríki fyrir árin 2011-131 að viðlögðum 15 % af upprunalegri grunnlínu fyrir HCFC2. Miðað við fyrirliggjandi forsendur setur þetta grunnlínu kvótanna við 243,7 kílótonn koldíoxíðjafngildis. Innflutningur til landsins árið 2015 var umtalsvert meiri, eða 280,6 kílótonn. Þetta þýðir að það kemur til verulegs niðurskurðar hér á landi, miðað við árið 2015, um leið og kvótar bókunarinnar fara að telja. Þannig verður heimill innflutningur á árabilinu 2019-23 aðeins 78 % af skráðum innflutningi árið 2015. Mynd 1 sýnir hvernig útfösunin mun líta út hér á landi miðað við þessar forsendur.

  Útfösun HFC undir Montrealbókuninni
  Mynd 1: Útfösun HFC efna hér á landi miðað við kvótamörk í Montrealbókuninni. Eins og grafið sýnir liggur reiknuð grunnlína neðar en skráður innflutningur á árinu 2015 svo nokkru nemur. Í ljósi þess mun koma til umtalsverðrar skerðingar á innflutningi miðlanna strax og kvótarnir fara að telja enda fyrsta kvótamarkið, sem tekur gildi þegar árið 2019, einungis 78 % af skráðum innflutningi 2015.  1 Innflutningstölur sem lagðar eru til grundvallar meðaltalinu sem hér er notast við varða eingöngu innflutning hreinna miðla, þ.e. ekki HFC-efni sem er að finna t.a.m. í loftkælingum innfluttra bíla eða kælivéla sem innihalda kælimiðil við innflutning.

  2 Grunnlína vegna innflutnings HCFC-efna byggist á innflutningstölum frá 1989 (innflutningur HCFC-efna árið 1989 + 2,8 % innflutnings CFC-efna sama ár). Upprunaleg forsenda grunnlínunnar var ósoneyðingarmáttur og grunnlínan því gefin í ODP tonnum. Útreikningur HCFC grunnlínu í koldíoxíðjafngildum byggist á upplýsingum frá Ósonskrifstofu UNEP um innflutning HCFC- og CFC-efna til Íslands 1989 og viðeigandi hnatthlýnunarstuðla.

  Mynd sem fylgir - Rauði listinn

  Rauði listinn

  Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
  Meira

  Vinsælar síður

  An exception occurred: Invalid column name 'orderby'.