Meðhöndlaðar vörur

Meðhöndlaðar vörur geta gert meiri skaða en gagn á heimilum.

Í okkar daglega lífi notum við fullt af vörum sem innihalda eða eru meðhöndlaðar með virkum efnum sem eru ætluð til þess  að vinna á og berjast gegn örverum og fleiri skaðvöldum.  Fáir neytendur gera sér grein fyrir að með því að nota þessar vörur er hætta er á að til verði bakteríur sem þola þessi eiturefni.  Í raun gætu sæfivörur verið alveg óþarfar við margar hversdagslegar aðstæðum þegar kemur að vinna á bakteríum og lykt.

Á undanförnum árum hefur fjöldi vara á markaði sem meðhöndlaðar eru með virkum efnum í því skyni að drepa örverur aukist jafnt og þétt.  Sem dæmi um þessar meðhöndluðu vörur má nefna íþróttaskó og sokka sem eru markaðssettir með fullyrðingu um að þeir lykti ekki af svita, eða  þrifaklútar og sturtuhengi sem eru varin árás baktería og myglu.

Fyrir neytandann gæti virst ákjósanlegt að vera laus við bakteríur, myglu og óæskilega lykt með því að kaupa vörur sem hafa verið meðhöndlaðar á þennan hátt.  Þó er ærin ástæða fyrir neytendur að hugsa sig tvisvar um áður en hlutir eins og bakteríufrí skurðarbretti eru sett í innkaupakörfuna.

Sæfivörur eru ekki skaðlausar og ættu aðeins að vera notaðar af ýtrustu nauðsyn.  Þær geta valdið ofnæmi og verið skaðlegar heilsu fólks og umhverfinu.  Á sama tíma geta neytendur óbeint verið að ýta undir myndun á þolnum bakteríum með því að nota vörur sem hafa verið meðhöndlaðar á þennan hátt. Rannsóknir sýna að virku efnin í meðhöndluðum vörum  losna úr þeim og skolast út í umhverfið skv. (Sjá hér)

Meðhöndlaðar vörur með sótthreinsieiginlega eru oft óþarfar.

Notkun á sæfivörum getur verið nauðsynleg til þess að verjast lífverum sem eru skaðlegar heilsu fólks og dýra eða valda skemmdum á ýmsu sem er í okkar daglega umhverfi, til dæmis byggingum og byggingarefni.  Á hinn bóginn eru lyktarlausir sokkar og bakteríudrepandi þurrkur óþarfar.

„Okkar ráð til neytenda er að forðast vörur ef fullyrt er að þær innihaldi efni sem hafa sæfandi áhrif.  Í mörgum tilfellum hafa áhrif virku efnanna hvorki verið rannsökuð almennilega né sönnuð.  Mun áhrifameiri leið til að forðast bakteríur og ólykt er að þvo föt og sturtuhengi, þrífa eldhúsáhöld með sjóðandi vatni og sápu og að halda heimilinu almennt hreinu og snyrtilegu“ segir Elín Ásgeirsdóttir, sérfræðingur á Umhverfisstofnun.

Vertu vakandi fyrir því sem lofað er með meðhöndluðum vörum

Ef fullyrt er í auglýsingu um vöru að hún búi yfir sæfandi áhrifum skal það vera merkt sérstaklega og virka efnið sem varan inniheldur koma fram í upplýsingum um hana. Jafnframt skulu fylgja  notkunar- og öryggisleiðbeiningar.  Þú þarft að hafa augun opin fyrir orðum eins og bakteríudrepandi („antibacterial“), myglueyðandi („anti-mould“), mygluhemjandi („mould-repellent“), þol gegn mjölsvepp („mildew-resistant“), bakteríuhemjandi („bacteriostatic“), lyktarlaus („odourless“) og vinnur gegn ólykt („anti-odour“).

Það er hugsanlegt að vörur hafi verið meðhöndlaðar með sæfivörum án þess að það sé tekið sérstaklega fram. Ef þú ert í vafa skaltu hafa samband við söluaðila eða framleiðanda vörunnar, þeir eru skyldugir að veita nánari upplýsingar innan 45 daga.

"Sæfivörur" er orð sem nær yfir vörur sem ætlaðar eru til þess að berjast gegn meindýrum, bakteríum og sveppum. Í sæfivörum eru eitt eða fleiri virk efni með sæfandi (lífeyðandi) eiginleika sem gera vörurnar áhrifaríkar gegn skaðvöldunum sem þeim er ætlað að berjast gegn. Dæmi um sæfivörur eru flugnafælur, viðarvarnarefni, nagdýraeitur og sótthreinsandi vörur.  

Sú staðreynd að sæfivörur eru hannaðar til að drepa og uppræta skaðvalda felur í sér að þær eru í eðli sínu eitraðar og hættulegar öðrum lífverum, sem þeim er ekki ætlað að beinast gegn. Af þeim sökum er mikilvægt að sæfivörur séu notaðar á réttan hátt í samræmi við notkunarleiðbeiningar til þess að skaða ekki lífríkið.

Hvað eru meðhöndlaðar vörur með sæfivörueiginleika?

Margar algengar vörur sem þú notar í daglegu lífi gætu verið meðhöndlaðar en tilgangurinn með því gæti t.d. verið að verja þær fyrir skemmdum af völdum skordýra og örvera þegar flytja þarf þær langar leiðir. Þetta gæti meðal annars átt við um húsgögn, vefnaðarvörur, fatnað o.fl. Sjaldgæft er að það komi fram að slíkar vörur hafi verið meðhöndlaðar með virkum efnum. Annar hópur meðhöndlaðra vara eru þær þar sem virku efni hefur verið komið fyrir í vörunni til að sýna fram á að hún hafi eiginleika umfram aðrar sambærilegar vörur. Þetta gæti til dæmis átt við um nærfatnað sem dregur úr líkamslykt vegna meðhöndlunar með virku efni sem fullyrt er að komi í veg fyrir bakteríuvöxt. Hið sama gildir um þrifaklúta og svampa, skó, íþróttaföt og ýmsar aðrar  meðhöndlaðar vörur sem eru markaðssettar með fullyrðingum eins og „lyktarlaust“, „kemur í veg fyrir vöxt örvera“. Vörur meðhöndlaðir á þennan hátt geta yfirleitt verið aðgreindar með fullyrðingum um að þær séu "bakteríudrepandi", "lyktarlausar" eða "bakteríuheftandi" o.s.frv. Algengast er að finna þessar fullyrðingar um skó, sokka og þrifaklúta, en þær geta einnig náð til margra annara vara.

Dæmi um meðhöndlaðar vörur með sótthreinsieiginleika:
 • Skurðarbretti
 • Þrifaklútar
 • Sturtuhengi
 • Dýnur og púðar
 • Skór
 • Ryksugupokar
 • Íþróttafatnaður
 • Nærföt
 • Kæliskápar og frystar

Hvaða vandamál fylgja notkun á meðhöndluðum vörum með sæfandi eiginleika?

Eitt stærsta vandamálið varðandi notkun meðhöndlaðra vara með sæfandi eiginleika á heimilum og í tómstundastarfi er að hún hefur í för með sér óþarfa efnanotkun og veldur þannig auknu álagi á bæði samfélagið og umhverfið. Með þvotti á meðhöndluðum íþróttafatnaði skolast virku efnin úr honum og fara út í umhverfið. Ætíð ætti að hafa í huga að þessi efni geta verið hættuleg lífverum almennt.

Margar meðhöndlaðar vörur sem þú notar innihalda bakteríudrepandi efni sem geta ýtt undir það að til verði bakteríur sem eru ónæmar fyrir þeim. Sú hætta er einnig fyrir hendi að röng eða óviðeigandi notkun sæfiefna við meðhöndlun á vörum geti valdi ofnæmi eða öðrum heilsuvandamálum

Meðhöndlaðar vörur eru  ekki háðar neinum  leyfum frá yfirvöldum og því er ekki alltaf öruggt að sýnt hafi verið fram á virkni þeirra og jafnvel hægt að draga í efa að hún sé fyrir hendi. Seljandi eða framleiðandi hlýtur þó að vita um meðhöndlunina og hvernig hún virkar.

Hugsaðu þig tvisvar um áður en þú kaupir meðhöndlaða vöru

Sem neytandi, ættir þú að vera meðvitaður um að meðhöndlaðar vörur innihalda virk sæfandi efni sem eru hönnuð til að berjast gegn lífverum. Þetta eru efni sem geta einnig verið skaðleg heilsu fólks og umhverfi. Það er því góð hugmynd að íhuga alltaf hvort þú getur leyst vandamálið á annan hátt en með því að nota meðhöndlaða vöru með sæfandi eiginleika.

Þú átt rétt á upplýsingum um vöruna

Ef þig grunar að þú hafir keypt vöru sem inniheldur virk efni með sæfandi eiginleika getur þú haft samband við söluaðila eða framleiðanda og beðið um upplýsingar.

Ef þú ert með vöru í höndunum  sem búin er sæfandi eiginleikum skal það koma fram í upplýsingum um hana og hvaða virku efni hún inniheldur ásamt notkunarleiðbeiningum.  Vísbendingar um þetta geta verið fullyrðingar eins og „bakteríudrepandi“(„antibacterial“), „myglueyðandi“ („anti-mould“), „mygluhemjandi“ („mould repellent“), „þol gegn mjölsvepp“ (“mildew-resistant"), „bakteríuhemjandi“ (“bacteriostatic"), „lyktarlaus“ ("odourless"), „vinnur gegn lykt“ ("anti-odour"). Ef þú ert í vafa getur þú haft samband við framleiðandann, sem er skyldugur til að gefa þér frekari upplýsingar um vöruna innan 45 daga.

Krafan á framleiðendur að upplýsa neytendur um meðhöndlaðar vöru er hluti af ESB reglugerð um sæfivörur sem var innleidd á Íslandi árið 2014. Markmiðið er að vernda bæði heilsu fólks og umhverfið.

Góð ráð fyrir örugga notkun sæfivara og meðhöndlaðra vara með sæfieiginleika á heimilinu

 • Forðastu óþarfa notkun sæfivara og meðhöndlaðra vara á heimilum.
 • Forðastu að nota meðhöndlaðar vörur með bakteríudrepandi eiginleikum á heimilum svo sem meðhöndlaðar þrifaklúta, bleyjur o.s.frv. Ekki skal nota vörur með sótthreinsandi eða bakteríudrepandi eiginleika til almennra þrifa á heimilum. Fyrir almenn þrif ætti að nota venjuleg þvottaefni - og þá helst umhverfisvæn, t.d  vörur merktar norræna Svaninum eða Evrópublóminu.
 • Eldhús. Oft er það besta og auðveldasta lausnin að nota sjóðandi vatn til að sótthreinsa eldhúsáhöld og skurðarbretti.
 • Aðrir valkostir. Kannaðu hvort þú getur notað aðferðir sem ekki byggjast á notkun efna í staðinn fyrir sæfivörur, til dæmis  músagildrur í stað eiturefna til að halda niðri músagangi eða hlífðarfatnað og búnað í stað fæliefna til að forðast skordýrabit.
 • Lestu merkimiðann. Lestu og fylgdu leiðbeiningunum á merkimiða sæfivörunnar. Í leiðbeiningum kemur fram  hvernig á að nota vöruna og í hvaða magni, hugsanleg hætta tengd notkun vörunnar og hvaða varúðarráðstafanir ætti að viðhafa.
 • Geymsla. Sæfivörur skulu ávallt geymdar þar sem börn og gæludýr ná ekki til þeirra.
 • Umbúðir. Sæfivörur skulu alltaf hafðar í upprunalegum umbúðum. Leifum af sæfivvöru má  ekki undir neinum kringumstæðum hella yfir í önnur ílát.
 • Handþvottur. Þvoið hendur eftir notkun á sæfivöru nema eftir notkun handsótthreinsiefnis
Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira