Efni í hlutum og réttur neytandans

Allt í kringum okkur eru kemísk efni sem koma víða að góðum notum í okkar daglega lífi, bæði í efnablöndum og hlutum. Þó eru sum innihaldsefni varasöm og eiga upplýsingar um innihaldsefni, hættu og varúð að koma fram á umbúðum efna og efnablandna. Hins vegar er ekki gerð krafa um innihaldslýsingu á umbúðum hluta. Neytendur eiga þó rétt á að fá upplýsingar um hvort hlutur innihaldi efni á lista Evrópusambandsins yfir sérlega hættuleg efni, svokölluðum kandídatslista. Þessi réttur nær til hluta eins og til dæmis textílvara, húsgagna, skófatnaðar, íþróttavara, leikfanga og raftækja. Ef vara er meðhöndluð með varnarefni, t.d. sótthreinsandi efni, þá á það að koma fram á umbúðum. 

Kandídatslistinn inniheldur sérlega varasöm efni sem geta valdið alvarlegum og langvarandi áhrifum á heilsu manna og umhverfi. Þau geta til dæmis verið krabbameinsvaldandi, valdið ófrjósemi eða verið skaðleg umhverfinu. Ef efni á listanum finnst í vöru í yfir 0,1% styrk hefur neytandinn rétt á að fá að vita það. Neytandinn getur óskað eftir þessum upplýsingum í verslunum og skal söluaðili upplýsa neytandann um hvort hluturinn innihaldi efni á listanum og þá hvaða efni. Viðkomandi upplýsingar skulu afhentar án þess að gjald komi fyrir og innan 45 daga. Til að tryggja gott upplýsingaflæði hefur söluaðilinn rétt á að fá sömu upplýsingar frá sínum birgja.

Góð ráð

  • Forðastu vörur sem hafa sterka kemíska lykt. Þó það sé ekki algengt þá geta ákveðnir hlutir valdið ofnæmi eða kallað fram ofnæmisviðbrögð. Ef slíkt gerist skal upplýsa fyrirtækið þar sem varan var keypt um það. 
  • Spurðu í versluninni. Sá sem markaðssetur efni, efnablöndu eða hlut sem inniheldur efni á að vera upplýstur um hvað hann er að selja. Útbúið hefur verið eyðublað sem hægt er að fylla inn í og afhenda í versluninni. 

Á heimasíðu Efnastofnunar Evrópu er fjallað sérstaklega um þau efni sem við komumst í snertingu við dags daglega og þar er einnig að finna kynningarmyndband. Umhverfisstofnun Danmerkur hefur einnig unnið að spennandi verkefni um efni í hlutum.

Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira